Nýlega birti Byggðastofnun nýjar tölur um íbúafjölda sveitarfélaga og byggðarkjarna og kom þar fram að íbúar á Íslandi eru 387.758 og þar af búa 369.048 (95%) í byggðarkjörnum og 18.710 (5%) í dreifbýli.
Á höfuðborgarsvæðinu eru 240.882 íbúar (64% landsmanna) en 135.366 (36%) búa utan höfuðborgarsvæðisins. Íbúum landsins fjölgaði um 11.510 (3,1%) á árinu 2022 en mest fjölgun varð á Suðurnesjum (6,7%) og á Suðurlandi (4,2%). Þegar rýnt er í þessar tölur má sjá að íbúum landsbyggðar fer fækkandi og straumurinn liggur allur á suðvesturhornið. Ég tel að það sé mikilvægt að við höldum öllu landinu í byggð og gerum fólki kleift að velja sér búsetu í landinu þar sem það vill búa og stuðla þannig að blómlegri byggð um allt Ísland. Nútímaþjóðmálaumræða snýst að öllu leyti um höfuðborgarsvæðið en landið er svo miklu meira en bara borg.
Mikið hefur verið talað um að lóðaframboð sé af skornum skammti á höfuðborgarsvæðinu og einnig um að samgöngur á því svæði séu komnar að þolmörkum, ásamt því er óbærileg bið fyrir fjölskyldufólk að koma börnum sínum að í dagvistunarúrræði, t.d. leikskóla.Aukin lífsgæði fólgin í því að búa á landsbyggðinni
Er það í raun þannig að við þurfum að hrúga öllu fólki, fyrirtækjum og stofnunum á sama blettinn á landinu? Ég tel svo ekki vera, við erum fámenn þjóð í stóru landi.
Landsbyggðin býður upp á aukin lífsgæði, aukin tækifæri sérstaklega fyrir ungt fólk sem hefur sótt sér þekkingu og menntun, landsbyggðin þarf á því fólki að halda. Það eru mikil lífsgæði að þurfa ekki að sitja fastur í bíl á milli staða, koma barninu sínu með skjótum hætti í leikskóla og eiga möguleika á að eignast húsnæði á viðráðanlegu verði.Við þurfum breytta byggðastefnu
Það er hægt að efla landsbyggðina með ýmsum hætti, með framtaki einstaklinga, fyrirtækja og opinberra stofnana. Það er samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja að halda núverandi starfsemi sinni á landsbyggðinni og einnig sækja fram. Kerecis á Ísafirði er gott dæmi um það. Einnig má hið opinbera gera mun betur í þessum efnum með því að færa í auknum mæli stofnanir út á land, það er vel hægt með nútímatækni.
Með samvinnuhugsjónir að leiðarljósi bæði eflum við og styrkjum landsbyggðina með því að hafa trú á lífi í öllum byggðarkjörnum á Íslandi.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar og formaður bæjarráðs í Suðurnesjabæ
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. desember 2023