Categories
Greinar

Ísland fulltengt – ljósleiðaravæðing byggðakjarna

Deila grein

23/04/2021

Ísland fulltengt – ljósleiðaravæðing byggðakjarna

Í lok þessa mánaðar mun ég staðfesta síðustu samn­inga rík­is­ins við sveit­ar­fé­lög á grund­velli sam­vinnu­verk­efn­is­ins Ísland ljóstengt, en um það verk­efni hef­ur ríkt þver­póli­tísk samstaða. Margt má læra af skipu­lagi og fram­kvæmd þessa verk­efn­is sem ég lagði horn­stein að með grein minni „Ljós í fjós“ árið 2013. Það vega­nesti þurf­um við að nýta við áfram­hald­andi upp­bygg­ingu fjar­skiptainnviða á landsvísu. Fjar­skiptaráð, sem starfar á veg­um sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneyt­is­ins, fundaði ný­verið með öll­um lands­hluta­sam­tök­um utan höfuðborg­ar­svæðis­ins um stöðu og áskor­an­ir í fjar­skipt­um. Niðurstaða þess­ara funda var m.a. sú að áskor­an­ir eru ekki alls staðar þær sömu þó að brýn­asta úr­lausn­ar­efnið sé hið sama um allt land, en það er ljós­leiðara­væðing byggðakjarna.

Stóra mynd­in í ljós­leiðara­væðingu lands­ins er sú að eft­ir sitja byggðakjarn­ar vítt og breitt um landið, sem hafa ekki aðgang að ljós­leiðara nema að tak­mörkuðu leyti. Það er ein­fald­lega ekki boðleg staða á fyrstu árum fjórðu iðnbylt­ing­ar­inn­ar. Skila­boð sveit­ar­fé­laga eru af­drátt­ar­laus og skýr í þess­um efn­um – það er for­gangs­mál að ljós­leiðara­væða alla byggðakjarna.

Í ný­legri grein okk­ar Jóns Björns Há­kon­ar­son­ar, for­manns fjar­skiptaráðs, und­ir yf­ir­skrift­inni „Ísland full­tengt – ljós­leiðari og 5G óháð bú­setu“, er kynnt framtíðar­sýn um al­menn­an aðgang heim­ila og fyr­ir­tækja að ljós­leiðara án þess þó að fjalla um hvernig sam­fé­lagið geti náð henni fram. Tíma­bært er að taka upp þann þráð. Eft­ir því sem nær dreg­ur verklok­um í Ísland ljóstengt er oft­ar spurt hvort ríkið ætli að láta sig ljós­leiðara­væðingu byggðakjarn­anna varða og þá hvernig. Fram til þessa hef ég talið mik­il­vægt að draga ekki at­hygli sveit­ar­fé­laga of snemma frá ljós­leiðara­væðingu dreif­býl­is­ins, sem hef­ur reynst tölu­verð áskor­un, einkum fyr­ir minni og dreif­býlli sveit­ar­fé­lög. Von­ir stóðu til þess að ljós­leiðara­væðing byggðakjarna færi fram sam­hliða Ísland ljóstengt-verk­efn­inu á markaðsleg­um for­send­um en sú upp­bygg­ing hef­ur því miður ekki gengið eft­ir sem skyldi.

Ég hyggst svara ákalli um ljós­leiðara­væðingu byggðakjarna og leggja grunn að nýju sam­vinnu­verk­efni, Ísland full­tengt, í sam­ræmi við mark­mið fjar­skipta­áætl­un­ar um að ljúka ljós­leiðara­væðingu lands­ins alls fyr­ir árs­lok 2025. Fjar­skiptaráði og byggðamálaráði hef­ur þegar verið falið að greina stöðuna á landsvísu í sam­vinnu við Póst- og fjar­skipta­stofn­un, í því skyni að und­ir­byggja val­kosti og ákvörðun­ar­töku um aðkomu stjórn­valda að einu brýn­asta byggðamáli sam­tím­ans.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. apríl 2021.