Categories
Greinar

Ís­land í farar­broddi gegn út­breiðslu sýkla­lyfja­ó­næmis

Deila grein

27/02/2020

Ís­land í farar­broddi gegn út­breiðslu sýkla­lyfja­ó­næmis

Ávorþingi 2019 varð breyting á löggjöf um innflutning á matvælum, vegna niðurstöðu EFTA-dómstólsins, sem heimilar innflutning á hráu kjöti og ferskum matvælum. Í kjölfarið tók ríkisstjórnin þá ákvörðun að Íslendingar yrðu fyrsta þjóðin í heiminum til að banna dreifingu og sölu á matvælum sem innihalda ákveðnar tegundir af sýklalyfjaónæmum bakteríum. Samhliða samþykkti Alþingi aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna í 17 liðum til að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Málið er nú í höndum viðkomandi ráðherra sem vinna að kortlagningu á umfangi sýklalyfjaónæmra baktería á íslenskum matvælamarkaði.

Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóður stofnaður

Mikilvægur áfangi í þeirri vegferð náðist á dögunum þegar sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra skrifuðu undir samkomulag um stofnun sýklalyfjaónæmis- og súnusjóðs. Sjóðnum er ætlað að fjármagna verkefni undir formerkjum „One health“, sem snúa að grunnrannsóknum á sýklalyfjaónæmi. Þetta er mikilvægt skref í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi en betur má ef duga skal. Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð unnið ötullega að því að tryggja heilnæmi matvæla, gæta að heilsu fólks, aðbúnaði og heilsu búfjár. Við breytingu á lögum um innflutning matvæla settu þingmenn Framsóknarflokksins það skilyrði að aðgerðaáætlunin yrði samþykkt fyrir afgreiðslu málsins og þar með að Ísland verði í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.

Ein stærsta ógn samtímans

Sýklalyfjaónæmi er ein stærsta ógnin við heilsu manna og dýra nú og næstu áratugina. Rannsóknir hafa sýnt að skýrt samhengi er á milli mikillar notkunar á sýklalyfjum við framleiðslu matvæla og tíðni sýkinga með sýklalyfjaónæmum bakteríum í fólki. Hefðbundin sýklalyf eru hætt að virka á ákveðnar bakteríur og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun. Við Íslendingar erum í einstakri stöðu þar sem notkun á sýklalyfjum við matvælaframleiðslu hérlendis er með því minnsta sem gerist í heiminum. Okkur ber skylda til að vernda sérstöðu okkar nú sem endranær. Aukin tíðni sýkinga af völdum sýklalyfjaónæmis í heiminum er ógn við lýðheilsu. Framsókn vill tryggja að íslenskir neytendur fái á sitt borð matvöru í hæsta gæðaflokki og mun fylgja aðgerðaráætluninni fast eftir, með lýðheilsu að leiðarljósi.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. febrúar 2020.