Categories
Greinar

Ísland ljóstengt

Deila grein

27/10/2016

Ísland ljóstengt

einar-freyr-elinarsonLjóstenging allra landssvæða hefur verið eitt af áhersluatriðum í stefnu Framsóknarflokksins um árabil.

Gott fjarskiptanet um land allt er hornsteinn nútímasamfélags og styrkir samkeppnisstöðu landsins. Útbreiðsla góðra nettenginga er því ein af meginforsendum ákvörðunar um búsetu og hefur því verulega áhrif á þróun byggðar. Framsóknarflokkurinn vill byggja upp fjölbreytt atvinnulíf um land allt, og þar spilar ferðaþjónustan stórt hlutverk. Stór og smá fyrirtæki þurfa að geta treyst á góða nettengingu og síðast en ekki síst, hafa aðgang að þriggja fasa rafmagni.

Auka fjármuni til verkefnsins
Á liðnu kjörtímabili var farið í landsátak, undir forystu Framsóknarflokksins, um uppbyggingu ljósleiðaranets sem ber heitið „Íslands ljóstengt“. Markmið verkefnsins var að gera áætlun um að ljóstengja allt landið. Starfshópurinn lauk sínu starfi í vor og kynnti verkefnið. Á fjárlögum 2016 var gert ráð fyrir 500 milljónum til verkefnisins á árinu. Þeir fjármunir eru ekki nægir ef við ætlum að ná markmiðum okkar að ljóstengja allt landið, innan fárra ára. Við verðum að bæta fjármunum í þetta verkefni svo við náum að ljúka því sem fyrst. Miklir hagsmunir eru í húfi.

Fámennari svæði
Huga þarf sérstaklega að þeim svæðum þar sem kostnaður við tengingar er mun dýrari en í þéttbýli m.a. vegna landfræðilegra aðstæðna, dreifbýlis og fámennis. Í því skyni þarf að auka fjármagn í verkefnasjóðinn „Ísland ljóstengt“ og koma þannig í veg fyrir að slík svæði dragist aftur úr. Einnig þarf að hraða uppbyggingu farsímakerfa. Svæði sem enn eru langt á eftir í fjarskiptum skulu vera í forgangi uppbyggingar.

Tækifæri fyrir unga fólkið
Til þess að samfélög þrífist verður að eiga sér stað nýliðun og til þess að ungt fólk vilji setjast að vítt og breitt um landið þurfa innviðir og þjónusta að vera í takt við samtímann. Ungt fólk vill geta stundað fjarnám, til þess þarf nettengingu. Ungt fólk vill hafa fjölbreytta starfsmöguleika, þeir aukast gríðarlega með góðri nettengingu. Ungt fólk vill búa í dreifbýlinu og byggja upp fyrirtæki, til þess þarf net og aðgang að þrífösuðu rafmagni.

Framsóknarflokkurinn vill halda áfram að beita sér í þessum þjóðþrifamálum.

Framsókn fyrir fólkið. X-B.

Einar Freyr Elínarson skipar 4.sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.

Birtist á sunnlenska.is þann 27. október 2016.