Categories
Greinar

Íslensk kvikmyndagerð á tímamótum

Stefn­an set­ur skýr mark­mið um efl­ingu fjöl­breyttr­ar og metnaðarfullr­ar mennt­un­ar á sviði kvik­mynda­gerðar. Boðaðar eru mark­viss­ar aðgerðir til að efla mynd- og miðlalæsi barna og ung­linga og styðja við skap­andi hugs­un. Slíkt hef­ur aldrei verið mik­il­væg­ara en nú, á tím­um of­gnótt­ar af upp­lýs­ing­um sem erfitt er að henda reiður á. Þá er í stefn­unni kveðið á um vandað og metnaðarfullt kvik­mynda­nám á há­skóla­stigi, nokkuð sem grein­in hef­ur kallað eft­ir um langt skeið. Námið mun efla list­rænt sjálf­stæði ís­lenskr­ar kvik­mynda­gerðar, auka fag­lega umræðu og opna spenn­andi tæki­færi til náms og starfa.

Deila grein

08/10/2020

Íslensk kvikmyndagerð á tímamótum

Menn­ing og list­ir skipta mestu máli þegar hrikt­ir í stoðum sam­fé­laga. Þær setja líðandi stund í sam­hengi, veita skjól frá amstri hvers­dags­ins og skapa sam­stöðu.

Grósk­an í ís­lensku menn­ing­ar­lífi er með ólík­ind­um. Þar liggja líka mörg af okk­ar stærstu tæki­fær­um til að byggja upp hug­vits­drifið og skap­andi at­vinnu­líf. Óvíða eru þessi tæki­færi meiri en í kvik­myndal­ist og til að ýta und­ir áfram­hald­andi vöxt hafa stjórn­völd nú lagt lín­urn­ar, með kvik­mynda­stefnu til næstu tíu ára. Þessi fyrsta heild­stæða kvik­mynda­stefna var kynnt í vik­unni, en hún bygg­ist á til­lög­um verk­efna­hóps sem skipaður var fyr­ir ári. Í hópn­um sátu full­trú­ar list­grein­ar­inn­ar, at­vinnu­lífs og stjórn­valda og lagði hóp­ur­inn ríka áherslu á sam­ráð við hagaðila í grein­inni. Niðurstaðan er metnaðarfull og raun­sæ, og ég er sann­færð um að stefn­an mun styðja vöxt kvik­mynda­gerðar sem list­grein­ar og alþjóðlega sam­keppn­is­hæfr­ar fram­leiðslu­grein­ar.

Í stefn­unni eru sett fram meg­in­mark­mið til næstu tíu ára og aðgerðir til­greind­ar með kostnaðaráætl­un­um. Um leið eru aðilar gerðir ábyrg­ir fyr­ir ein­stök­um aðgerðum til að tryggja fram­kvæmd og eft­ir­fylgni. Aðgerðirn­ar lúta ann­ars veg­ar að efl­ingu kvik­mynda­menn­ing­ar og kvik­myndal­ist­ar og hins veg­ar að efl­ingu at­vinnu­lífs í kring­um kvik­mynd­a­starf­semi sem er bæði alþjóðleg og sjálf­bær.

Stefn­an set­ur skýr mark­mið um efl­ingu fjöl­breyttr­ar og metnaðarfullr­ar mennt­un­ar á sviði kvik­mynda­gerðar. Boðaðar eru mark­viss­ar aðgerðir til að efla mynd- og miðlalæsi barna og ung­linga og styðja við skap­andi hugs­un. Slíkt hef­ur aldrei verið mik­il­væg­ara en nú, á tím­um of­gnótt­ar af upp­lýs­ing­um sem erfitt er að henda reiður á. Þá er í stefn­unni kveðið á um vandað og metnaðarfullt kvik­mynda­nám á há­skóla­stigi, nokkuð sem grein­in hef­ur kallað eft­ir um langt skeið. Námið mun efla list­rænt sjálf­stæði ís­lenskr­ar kvik­mynda­gerðar, auka fag­lega umræðu og opna spenn­andi tæki­færi til náms og starfa.

Lof­orð um bætt starfs­um­hverfi fyr­ir grein­ina kall­ar einnig á aðgerðir, m.a. breyt­ing­ar á skattaum­hverfi og upp­færslu á end­ur­greiðslu­kerfi. Þar á Ísland í harðri alþjóðlegri sam­keppni, enda sjá marg­ar þjóðir kosti þess að byggja upp kvik­myndaiðnað í sínu landi. Yf­ir­stand­andi al­heimskreppa hef­ur síst dregið úr vilja þjóða til að laða til sín kvik­mynda­fram­leiðend­ur og Ísland get­ur ekki leyft sér að sitja aðgerðalaust hjá. Kost­ir nú­ver­andi end­ur­greiðslu­kerf­is eru marg­ir, en með því að hækka end­ur­greiðslu­hlut­fallið kæm­ist Ísland í flokk þeirra eft­ir­sókn­ar­verðustu. Fyr­ir því mun ég beita mér, til hags­bóta fyr­ir grein­ina sjálfa og hag­kerfið allt.

Rík sagna­hefð Íslend­inga hef­ur skilað okk­ur hundruðum kvik­mynda, heim­ilda- og stutt­mynda, sjón­varpsþátta og öðru fjöl­breyttu efni á síðustu ára­tug­um. Marg­ar er­lend­ar kvik­mynd­ir og þátt­araðir hafa verið tekn­ar hér og fjöldi ferðamanna heim­sótt Ísland ein­göngu vegna ein­stakr­ar nátt­úru­feg­urðar og menn­ing­ar sem birt­ist í kvik­mynd­um og sjón­varpsþátt­um. Ávinn­ing­ur­inn af þessu er mik­ill. Auk­in fjár­fest­ing í kvik­mynda­gerð er því bæði viðskipta­tæki­færi fyr­ir þjóðarbúið og áburður í mót­un menn­ing­ar okk­ar og sam­fé­lags­ins.

Á vor­mánuðum hækkuðu stjórn­völd fjár­veit­ing­ar í Kvik­mynda­sjóð um 120 millj­ón­ir króna, til að tryggja áfram­hald­andi kvik­mynda­fram­leiðslu á erfiðum tím­um. Með nýju kvik­mynda­stefn­unni verður bætt um bet­ur, því í fjár­laga­frum­varpi fyr­ir árið 2021 eru 550 millj­ón­ir króna eyrna­merkt­ar efl­ingu sjóða til fram­leiðslu á fjöl­breytt­ari kvik­mynda­verk­um, stuðningi við sjálfsprott­in kvik­mynda­menn­ing­ar­verk­efni, betri kvik­mynda­mennt­un o.s.frv.

Ég óska þjóðinni til ham­ingju með glæsi­lega kvik­mynda­stefnu. Hún er hvatn­ing og inn­blást­ur öll­um þeim sem vinna við kvik­mynda­gerð og sam­fé­lag­inu sem nýt­ur afrakst­urs­ins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. október 2020.