Landbúnaður er ein stærsta atvinnugrein Íslands. Samkvæmt vefsíðu atvinnuvegaráðuneytisins teljast eftirfarandi greinar til landbúnaðar: garðyrkja, alifuglarækt, eggjaframleiðsla, æðarrækt, svínarækt, geitfjárrækt, hrossarækt, jarðrækt, loðdýrarækt, nautgriparækt, sauðfjárrækt og skógarframleiðsla.
Landbúnaður er jafnframt ein stærsta atvinnugreinin í Norðvesturkjördæmi og því skiptir miklu máli fyrir okkur sem þar búa hvernig umgjörð stjórnvalda um málaflokkinn er háttað. Í núverandi skiptingu ráðuneyta deila sjávarútvegur og landbúnaður heimili. Það er að vissu leyti skiljanlegt þar sem báðar atvinnugreinarnar eiga margt sameiginlegt eins og að stuðla að matvælaframleiðslu. Þó virðist þessi sambúð þeirra hafa orðið til þess að landbúnaðurinn hafi því miður gleymst, a.m.k. að hann hafi ekki fengið þá athygli og þá þyngd innan ráðuneytisins sem honum ber. Sú ákvörðun um sameiginlegt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti er, eins og öll önnur verk okkar, ekki meitluð í stein og henni er vel hægt að breyta sé fyrir því vilji. Sá sem tekur við málaflokki landbúnaðarins á næsta kjörtímabili mun mæta mörgum áskorunum og krefjandi verkefnum, og að okkar mati er gríðarlega mikilvægt að málaflokkurinn fái þá athygli sem honum svo sannarlega ber. Því teljum við að sú skipting ráðuneyta sem nú er viðhöfð verði breytt og aftur verði komið á sérstöku landbúnaðarráðuneyti með sérstökum ráðherra. Íslenskur landbúnaður á það skilið.
Landbúnaður og sjávarútvegur skipta höfuðmáli fyrir fæðu- og matvælaöryggi Íslendinga, en vegna þess hve harðbýlt er á Íslandi þurfa þessar atvinnugreinar töluvert meiri stuðning en á suðlægari svæðum. Einnig eru íslensku búfjárstofnarnir viðkvæmir fyrir sjúkdómum vegna marga alda einangrunar, en það hefur einnig stuðlað að miklu heilbrigði íslenskra dýra sem og minni þörf á lyfjanotkun í landbúnaði. Á Íslandi er lyfjanotkunin í landbúnaði sú minnsta í heiminum. Á síðasta ári kom bersýnilega í ljós hversu viðkvæm staða okkar getur verið þegar flutningur milli landa raskaðist verulega í kjölfar Covid-19. Heimsfaraldurinn varð til þess að innflutningur og útflutningur vara var óstöðugur og þar kom mikilvægi þess að lönd tryggi eigin matvælaframleiðslu vel í ljós.
Við viljum viðhalda sterkum landbúnaði sem landsmenn geta treyst á. Íslenskur landbúnaður á að vera sterkur og unninn með sjálfbærni að leiðarljósi. Það er mikilvægt fyrir umhverfið, fyrir fæðuöryggið, fyrir byggðirnar, fyrir neytendur og fyrir framtíðina.
Framtíðarsýn landbúnaðarins verður að vera okkur öllum skýr og við viljum tryggja það að hann fái aukna athygli hjá næstu ríkisstjórn. Það gerum við m.a. með nýju öflugu ráðuneyti landbúnaðarmála.
Stefán Vagn Stefánsson og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, varaþingmenn Framsóknar og sitja í 1. og 2. sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. júní 2021.