Categories
Greinar

Íþróttaveisla á Landsmóti UMFÍ

Deila grein

13/07/2018

Íþróttaveisla á Landsmóti UMFÍ

Mikil íþróttaveisla hefst í dag norður á Sauðárkróki, þar sem fram fer Landsmót Ungmennafélags Íslands. Samhliða því verður Landsmót UMFÍ fyrir 50 ára og eldri haldið en Unglingalandsmótið fer síðan fram í Þorlákshöfn í ágúst. Þessi mót eru mikilvægur vettvangur fyrir íþróttafólk á öllum aldri og öllum getustigum og til vitnis um hversu líflegt og fjölbreytt íþróttalíf er í landinu. Landsmótið er með nýju sniði þetta árið, þar sem einstaklingar 18 ára og eldri geta nú skráð sig til leiks, hvort sem þeir eru í íþrótta- og ungmennafélagi eða ekki. Það verður keppt í ríflega 30 greinum en auk þess geta gestir prófað ýmsar íþróttagreinar og hreyfingu á mótinu því boðið verður upp á kennslu, opna tíma og kynningar fyrir áhugasama.

Ungmennafélögin lögðu grunninn að íþróttamenningu hér á landi og þau gegna enn í dag mikilsverðu hlutverki með því að stuðla að fjölbreyttri íþróttaiðkun almennings. Innan Landssambands ungmennafélaganna eru nú 340 félög og félagsmenn rúmlega 160 þúsund, eða um 47% landsmanna. Það var mikil framsýni af stofnendum ungmennafélaganna fyrir daga fullveldisins að leggja ríka áherslu á heilsueflingu í gegnum hreyfingu og félagsstarf. Rannsóknir hafa í seinni tíð sýnt fram á veigamikið samspil hreyfingar, sjálfstrausts og almennrar vellíðanar. Félagslíf ungs fólks á Íslandi var líka fremur fábrotið í árdaga ungmennafélaganna og segja má með sanni að þau hafi einnig lyft grettistaki þar.

Ungmennafélagshreyfingin kemur að ótal verkefnum sem tengjast forvarnarstarfi, menningarmálum og útivist. Einna dýrmætasta starf hennar að mínu mati felst í því að auka virkni fólks, hvort heldur í félagsstörfum eða á íþróttasviðinu. Þessi virkni verður okkur sífellt þýðingarmeiri, ekki síst á tímum þar sem vísbendingar eru um að félagsleg einangrun sé að aukast í samfélaginu.

Það er aðall ungmennafélaganna að allir séu velkomnir og geti tekið þátt í íþrótta- og félagsstarfi og fundið sér hreyfingu við hæfi. Mikilvægi hreyfingar allt lífið er óumdeilt en okkur sem stöndum að íþrótta- og æskulýðsmálum hér á landi er einnig félagslegt og menningarlegt gildi íþrótta afar hugleikið. Þetta nýja fyrirkomulag sem prófað verður á landsmótinu 2018 mun vonandi hvetja fleiri til þess að stíga fram á völlinn – hvort sem þau vilja keppa í fótbolta, frisbígolfi eða stígvélakasti, eða einfaldlega prófa eitthvað alveg nýtt. Það er aldrei of seint að byrja.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. júlí 2018.