Tónlistarlíf á Íslandi hefur átt mikilli velgengni að fagna og vorum við minnt á það nýlega á degi íslenskrar tónlistar sem haldinn var hátíðlegur 6. desember síðastliðinn. Öflugt tónlistarnám leggur grunninn að og styður við skapandi tónlistar- og menningarlíf í landinu en nýverið var undirritað samkomulag ríkisins og sveitarfélaganna um stuðning við tónlistarnám til ársloka 2021. Markmiðið er að jafna aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi og festa fjármögnun námsins betur í sessi. Ljóst er að um veigamikið skref er að ræða en grunnfjárhæð framlags ríkisins er 545 milljónir kr. á ársgrundvelli sem greiðist til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna sem annast úthlutanir framlaganna. Á móti skuldbinda sveitarfélögin sig til að taka tímabundið yfir verkefni frá ríki sem nema 230 milljónum kr. á ári og sjá til þess að framlag renni til kennslu þeirra nemenda sem innritaðir eru í viðurkennda tónlistarskóla án tillits til búsetu. Samkomulagið er umfangsmikið en það snertir 33 viðurkennda tónlistarskóla víða um land en þar stunda nú um 600 nemendur nám á framhaldsstigi.Það skiptir máli fyrir tónlistarlífið í landinu að umgjörðin sé sterk og innviðir góðir. Á síðasta ári var gerð úttekt á veltu íslenskrar tónlistar fyrir Samtón, ÚTÓN og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Úttektin var unnin af dr. Margréti Sigrúnu Sigurðardóttur og Erlu Rún Guðmundsdóttur. Helstu niðurstöður eru þær að heildartekjur íslenska tónlistariðnaðarins á árunum 2015-2016 voru um það bil 3,5 milljarðar kr., auk 2,8 milljarða kr. í afleiddum gjaldeyristekjum til samfélagsins vegna komu tónlistarferðamanna til landsins. Þá stendur lifandi flutningur á tónlist undir tæplega 60% af heildartekjum íslenskrar tónlistar á meðan hljóðrituð tónlist og höfundarréttur nema hvort um sig 20%. Að auki sýnir úttektin að lifandi flutningur er mikilvægasta tekjulind sjálfra tónlistarmannanna á meðan plötusala hefur dregist saman.
Það er mikilvægt að halda áfram að styrkja umgjörð skapandi greina í landinu. Nýundirritað samkomulag um tónlistarnám skiptir sköpum á þeirri vegferð og mun gera fleirum kleift að stíga sín fyrstu skref í tónlist um land allt. Að auki hafa verið stigin mikilvæg skref í uppbyggingu menningarhúsa á landsbyggðinni en þau hafa haft ótvíræð jákvæð margfeldisáhrif á tónlistar- og menningarlíf bæja og nærsamfélaga. Við viljum að allir landsmenn geti notið lista og menningar og tekið virkan þátt í slíku starfi.