Categories
Greinar

Jöfnum aðgengi að húsnæðismarkaðnum

Í Gufunesi er spennandi verkefni þegar komið af stað þar sem Þorpið vistfélag er að reisa 65 íbúðir sem eru byggðar með ný lög um hlutdeildarlán í huga. Íbúðirnar, sem kosta á bilinu 19-37 milljónir, eru hluti af þeim fjölmörgu íbúðum sem við munum sjá koma inn á markaðinn á næstu misserum sem ungt fólk og tekjulágt mun geta keypt með stuðningi frá ríkinu í gegnum hlutdeildarlánin. Ég er mjög ánægður og stoltur af því að hlutdeildarlánin séu orðin að veruleika. Með þeim erum við að stíga myndarlegt skref til þess að aðstoða ungt fólk og lágtekjuhópa til að komast inn á fasteignamarkaðinn, og um leið erum við sem samfélag að segja að við sættum okkur ekki við að einungis þeir sem eru með sterkt bakland eigi að geta eignast eigið húsnæði.

Deila grein

04/11/2020

Jöfnum aðgengi að húsnæðismarkaðnum

Þann 1. nóvember tóku lög um hlutdeildarlán gildi sem er mikið fagnaðarefni. Með þessum lánum er verið að grípa inn í og rétta hlut tekjulágra einstaklinga og jafna aðgengi fólks að húsnæðismarkaðnum. Um allt of langt skeið hefur fjöldi einstaklinga ekki átt möguleika á því að eignast sitt eigið húsnæði af því að þeir höfðu ekki einhvern sem gat aðstoðað við fyrstu kaupin. Þessi lán munu því hjálpa fólki að búa við aukið öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum, hvar sem það býr á landinu.

Markmiðið með hlutdeildarlánum er bæði að auðvelda ungu fólki og tekjulágum fyrstu skrefin á fasteignamarkaði sem og að hvetja byggingaraðila til að byggja hagkvæmt íbúðarhúsnæði sem hentar þessum hópum. Kannanir hafa sýnt að á undanförnum árum hafa nýjar byggingar ekki verið í samræmi við eftirspurn þar sem þær hafa verið of stórar og of dýrar. Mikil þörf er fyrir uppbyggingu hagkvæms húsnæðis um allt land og eru hlutdeildarlánin einmitt hugsuð til þess að styðja við uppbyggingu á kaldari markaðssvæðum á landsbyggðinni.

Í Gufunesi er spennandi verkefni þegar komið af stað þar sem Þorpið vistfélag er að reisa 65 íbúðir sem eru byggðar með ný lög um hlutdeildarlán í huga. Íbúðirnar, sem kosta á bilinu 19-37 milljónir, eru hluti af þeim fjölmörgu íbúðum sem við munum sjá koma inn á markaðinn á næstu misserum sem ungt fólk og tekjulágt mun geta keypt með stuðningi frá ríkinu í gegnum hlutdeildarlánin. Ég er mjög ánægður og stoltur af því að hlutdeildarlánin séu orðin að veruleika. Með þeim erum við að stíga myndarlegt skref til þess að aðstoða ungt fólk og lágtekjuhópa til að komast inn á fasteignamarkaðinn, og um leið erum við sem samfélag að segja að við sættum okkur ekki við að einungis þeir sem eru með sterkt bakland eigi að geta eignast eigið húsnæði.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. nóvember 2020.