Categories
Greinar

Kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur, komið fram með svörin þar sem sigldum við í strand

Deila grein

12/05/2022

Kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur, komið fram með svörin þar sem sigldum við í strand

Ég gef kost á mér í fimmta sæti á lista Framsóknarmanna og annarra framfarasinna í komandi sveitarstjórnarkosningum. Það er einkar spennandi tækifæri sem ég er þakklát fyrir. Það eru forréttindi að lifa í lýðræðislegu samfélagi þar sem allir hafa sína rödd. Ég hlakka til að heyra frá fólkinu í samfélaginu og leggja mitt af mörkum við að bæta það góða samfélag sem við búum í hér í Rangárþingi eystra.

Ég tel mig vera í forsvari fyrir unga fólkið enda brenn ég mjög fyrir málefnum þess. Unga fólkið átti, eins og fleiri hópar, undir mikið högg að sækja þegar veiran skæða geisaði hvað mest hér á síðustu árum. Það reyndi á æskulýðinn þegar skólar tóku að loka, íþrótta- og tómstundastarf hjaðnaði og félagslífið varð lítið sem ekkert. Nú loks þegar rými hefur gefist til, tel ég það upplagt að tvíefla okkar mál.

Það er að ýmsu að huga. Það var margt sem tókst að ávinna á síðasta kjörtímabili en þó er alltaf hægt að gera meira og gera betur. Íþrótta- og æskulýðsmálin voru tekin fastari tökum með góðum árangri. Óhætt er að fullyrða að fjölbreytnin hefur aldrei verið meiri og að allt iði af lífi hvað þau mál varðar. Við teljum þó að það yrði gæfuspor fyrir sveitarfélagið að tryggja lengri opnunartíma Íþróttamiðstöðvarinnar. Með því erum við að leggja okkar af mörkum við að mæta þörfum allra.

Öflug starfsemi félagsmiðstöðvar er mikilvægur hlekkur í keðju blómstrandi félagslífs barnanna okkar. Okkur langar til þess að stuðla að góðu starfi þar með því að endurskoða fyrirkomulagið. Gott félagsstarf hefur svo margt að segja fyrir börn og ungmenni. Það er til að mynda ekki síst mikið forvarnargildi.

Fjarnám- og vinna hefur færst mikið í aukana eftir að covid ástandið setti ýmsa starfsemi úr skorðum. Það yrði gott skref að koma upp vinnuaðstöðu fyrir fólk að nýta sér. Það er okkur mikið hjartans mál að gera sveitarfélagið okkar að ákjósanlegum kosti fyrir unga fólkið til að setjast að á. Með því að stórbæta aðstöðu hér til náms og starfs án staðsetningar, erum við að höfða til þeirra.

Að lokum langar mig til að hvetja alla til þess að nýta kosningarétt sinn. Hann er ekki sjálfgefinn.

Mín einlæga ósk er sú að efla unga fólkið enn frekar til að taka virkari þátt í pólitík. Hún er gjarnan álitin óspennandi og kjánaleg af ungum kjósendum. Stolt segi ég frá því að það er eitt af stefnumálum okkar Framsóknar og annarra framfarasinna í Rangárþingi eystra að tryggja að tekið verði tillit til sjónarmiða barna og ungmenna í samfélaginu. Ungu raddirnar skipta gríðarlegu máli þegar á heildarmyndina er litið. Þar er á ferð fólk sem sér hlutina frá öðru sjónarhorni og er mikilvægt að gera þeim hærra undir höfði. „Kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur, komið fram með svörin þar sem sigldum við í strand“ mælti Vilhjálmur Vilhjálmsson svo skemmtilega í einu af kvæðum sínum. Þetta eru orð að sönnu.
Svo er gott að minna á það að breytingar og bætingar verða ekki til af sjálfu sér. Það er undir þér komið, kjósandi góður, að knýja fram það besta mögulega fyrir samfélagið og þegna þess.

Tryggjum framfarir með Framsókn fyrir Rangárþing eystra, við látum verkin tala.

Kolbrá Lóa Ágústsdóttir