Categories
Greinar

Kanntu brauð að baka?

Frambjóðendur á lista Framsóknarfélags Múlaþings hafa gríðarlega mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum, þekkja vel sveitarfélögin fjögur sem eru að sameinast og einsetja sér það markmið að klára sameininguna með farsælum hætti. Við vitum að verkefnið er ærið, umsvifamikið og krefjandi – þess vegna bjóðum við okkur fram. Framsóknarflokkurinn er framkvæmdaflokkur, við hikum ekki við að horfa til framtíðar, móta okkur stefnu – og halda okkur við hana.

Deila grein

11/09/2020

Kanntu brauð að baka?

Við sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi verður til víðfeðmt sveitarfélag með fjóra ólíka byggðakjarna. Þessi samfélög munu halda í sína sérstöðu en framundan er að samþætta og samræma margt sem enn liggur ekki fyrir hvernig á að framkvæma, það er í höndum næstu sveitarstjórnar. Stefnumótun og framtíðarsýn er eitt það mikilvægasta sem kjörnir fulltrúar þurfa að horfa til á næsta kjörtímabili. Við bökum nefnilega yfirleitt kökur eftir uppskriftum.

Fjármál á tímum COVID

Ábyrg fjármálastefna skiptir öllu máli fyrir nýja sveitarfélagið. Staðreyndin er sú að það verður hægara sagt en gert að ná utan um heildarfjármál þess þar sem sameiningin á sér stað á tímum Covid-19. Það er stærsti óvissuþátturinn þegar kemur að næsta vetri.

Auðlegð í starfsfólkinu

Það sem er mikilvægast er að sameiningin sjálf heppnist vel, að kjörnir fulltrúar og starfsmenn sveitarfélagsins vinni vel þá gríðarlega miklu og mikilvægu vinnu að sameina sveitarfélögin. Kjörnir fulltrúar þurfa því að taka margar stefnumótandi ákvarðanir um stóra sem smáa þætti er varða framtíðina.

Það þarf að tryggja að stjórnsýslan fái það svigrúm og stuðning sem hún þarf til að vinna verkin sem framundan eru, undir styrkri leiðsögn þeirra sem hafa til þess lýðræðislegt umboð. Til að taka góðar stefnumótandi ákvarðanir þarf samtal, samtal við kjósendur og starfsfólk sveitarfélagsins. Við vitum það nefnilega að nýja sveitarfélagið hefur á að skipa öflugu starfsfólki með mikla reynslu. Það að skapa góðan vinnuanda og gott starfsumhverfi fyrir þau er grundvallaratriði .

Frambjóðendur á lista Framsóknarfélags Múlaþings hafa gríðarlega mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum, þekkja vel sveitarfélögin fjögur sem eru að sameinast og einsetja sér það markmið að klára sameininguna með farsælum hætti. Við vitum að verkefnið er ærið, umsvifamikið og krefjandi – þess vegna bjóðum við okkur fram. Framsóknarflokkurinn er framkvæmdaflokkur, við hikum ekki við að horfa til framtíðar, móta okkur stefnu – og halda okkur við hana.

Jónína Brynjólfsdóttir, viðskiptalögfræðingur með MLM gráðu í forystu og stjórnun frá Bifröst og skipar hún skipar 3. sæti lista Framsóknarfélags Múlaþings til sveitarstjórnarkosninga í sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. september 2020.