Categories
Greinar

Kjarasamningar – Áskorun til okkar allra

Deila grein

24/09/2018

Kjarasamningar – Áskorun til okkar allra

Nánast allir kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum renna út í lok árs auk þess sem samningar á opinberum vinnumarkaði verða lausir í mars. Margir segja að undiraldan nú sé ekkert frábrugðin því sem alltaf gerist í aðdraganda kjarasamninga. Hins vegar er margt sem bendir til þess að umræðan nú sé þyngri heldur en verið hefur í langan tíma. Stöðugleiki efnahagslífsins og aukinn jöfnuður í samfélaginu getur farið saman í komandi kjarasamningum en til þess að svo geti orðið verða allir að leggja sitt af mörkum. Við setningu Alþingis fyrr í mánuðinum hvatti ég til þess að sýnd væri ábyrgð við þessar aðstæður og allir yrðu að líta í eigin barm.

Þyngra hljóð í atvinnurekendum 

Það er margt sem bendir til þess að svigrúm til launahækkana sé ekki mikið um þessar mundir. Áætlanir gera því miður ráð fyrir því að atvinnuleysi fari vaxandi á næsta ári. Ferðaþjónustan hefur verið talsvert í umræðunni og flugfélögin glíma við rekstrarerfiðleika. Hljóðið í atvinnurekendum kringum landið er þyngra nú en verið hefur í 2-3 ár. Það eiga allir að geta verið sammála um að það versta við þessar aðstæður væru hækkanir sem í framhaldinu myndu verða étnar upp af verðbólguskoti.

Hækkanir í efstu lögum verður að stöðva 

Árin fyrir fall bankanna blöskraði mörgum hvernig toppar samfélagsins voru komnir á himinhá laun með risa kaupaukum/bónusum. Í sumum tilfellum voru árslaun einstaklinga hærri heldur en verkamaður getur látið sig dreyma um á heilli starfsævi. Eftir fall bankanna tóku allir á sig byrðar til að rífa upp efnahagslífið og það tókst með undraverðum hætti. Nú hafa margir á tilfinningunni að í gangi sé launaskrið hjá efstu lögum samfélagsins og með tali um ábyrgð í efnahagsmálum megi skilja sem svo að þar sé talað til millistéttarinnar og þeirra sem hafa lægri tekjur.

Íslenskt samfélag byggist á jöfnuði og þeirri grunnhugsun að við viljum tryggja öllum jafna möguleika. Jafnvel þó að við séum búin að tryggja öllum ákveðinn grunn verðum við líka að horfa til þess að jöfnuður snýst um raunverulegan samanburð. Því snýst þetta ekki bara um hækkanir í prósentum, heldur hvort við getum leyft börnum okkar það sama óháð efnahag.

Á sama tíma eigum við að hvetja fólk til framsækni í námi og vinnu og að þeir sem mennti sig eða leggi meira á sig fái hærri laun. Sé farið of langt í þessa átt stuðlum við að ójöfnuði.

Endurtekin áskorun – Náum samstöðu um breytingar 

Ég fagna því að fara í samtal við aðila vinnumarkaðar um það hvernig við getum aukið jöfnuð í opinbera kerfinu líkt og kallað hefur verið eftir. Hinsvegar verða bæði verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur að fara yfir óeðlilegar hækkanir og kaupaukakerfi hjá forystufólki þeirra fyrirtækja sem eru að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða. Það gengur ekki að fyrirtæki í almannaeign séu að greiða himinháa bónusa ofan á laun sem fyrir eru hærri en þekkjast annars staðar í samfélaginu. Ég trúi því ekki að skattkerfið sé eina leiðin til að ná tökum á þessari óheilbrigðu stefnu.

Ég vil endurtaka áskorun mína til forystumanna lífeyrissjóða, til verkalýðshreyfingarinnar og til samtaka atvinnulífsins að endurskoða launakerfi og kaupauka hjá toppum þeirra fyrirtækja sem þeir eru í forystu fyrir. Það er mögulegt hjá okkur sem höfum hæstar tekjur að taka nú höndum saman og sýna að það sé vilji allra í samfélaginu til að auka jöfnuð og leggja þannig okkar af mörkum til að tryggja stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Það verða allir að taka á sig byrðar ef við ætlum að halda stöðugleika á vinnumarkaði.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. september 2018.