Categories
Greinar

Klárum að brúa bilið

Deila grein

11/02/2023

Klárum að brúa bilið

Við bæjarfulltrúar Framsóknar samþykktum á bæjarstjórnarfundi í vikunni tilraunaverkefni með svokallaðar heimgreiðslur, eða biðlistabætur, fyrir þá foreldra/forráðamenn sem eru á biðlista eftir plássi á leikskóla. Þó með þeim fyrirvara að þetta sé ekki framtíðarlausn og aðeins á meðan ekki hefur tekist að klára að brúa bil fæðingarorlofs og leikskóla.

Það virðist vera vilji meirihlutans að vinna þetta mál áfram og í framhaldinu hugsanlega bjóða upp á heimgreiðslur sem val, þ.e. að barnið þurfi ekki að vera á biðlista hjá leikskóla til að þiggja þessar greiðslur heldur geti foreldrar/forráðamenn kosið að vera lengur heima með barninu. Það er munaður sem líklega mjög fáir geta nýtt sér ef upphæðin verður 105 þúsund krónur eins og samþykkt var sem biðlistabætur. Fyrst og fremst er það hlutverk stjórnvalda að lengja fæðingarorlofið og þannig gera öllum kleift að vera lengur heima með börnum sínum í samvinnu við sveitarfélög og atvinnulíf.

Það hefur farið mikil vinna í þetta kosningaloforð um heimgreiðslur sem ekki sér fyrir endann á. Aftur á móti heyrist fátt um raunverulegar aðgerðir sem geta brúað bilið, í samræmi við þær tillögur sem starfshópur verkefnisins Brúum bilið lagði fram haustið 2019. Starfshópurinn var skipaður einstaklingum úr meiri- og minnihluta ásamt embættismönnum og fagráði leikskólastjórnenda og skilaði af sér vandaðri skýrslu. Í henni kemur fram að kanna eigi möguleika á að innrita börn í leikskóla tvisvar sinnum á ári, ekki bara á haustin eins og nú er gert. Eins standi til að kanna þann möguleika að hafa þrjár ungbarnadeildir eða ungbarnaleikskóla sem hver um sig getur innritað börn tvisvar á ári, samtals sex sinnum.

Meirihlutinn samþykkti ekki útrétta hönd minnihlutans sem bauð upp á samstarf við áframhaldandi vinnu verkefnisins Brúum bilið.

Það hefur verið stefna Akureyrarbæjar frá hausti 2021 að innrita 12 mánaða börn inn á leikskóla og ætti því að setja í algjöran forgang að útfæra hvernig hægt sé að innrita 12 mánaða börn oftar yfir árið. Við eigum að þora að horfa út fyrir kassann og endurhugsa þessa þjónustu alla upp á nýtt þar sem við horfum til þess bæði að bjóða framúrskarandi þjónustu og passa upp á velferð starfsfólks. Þess vegna voru það mikil vonbrigði að meirihlutinn hafnaði tillögu bæjarfulltrúa VG Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur að stofnaður yrði þverpólitískur starfshópur sem ynni áfram með þessar hugmyndir í nánu samstarfi við fagaðila og foreldra.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 8. febrúar 2023.