Categories
Greinar

Kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í New York – CSW60

Deila grein

18/03/2016

Kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í New York – CSW60

Þorsteinn-sæmundssonÉg er staddur á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin er af UN Women í New York.

Það er mikil upplifun að koma á ráðstefnuna og hér eru þúsundir fulltrúa úr öllum heimshornum, konur eru í miklum meirihluta. Dagskráin er svo viðamikil og viðburðir svo margir að segja má að fyrir hvern einn sem maður sækir missi maður af tíu öðrum. Allir sem sækja ráðstefnuna hafa því meira en nóg að gera þá daga sem hún stendur. Þessi ráðstefna er sú sextugasta sem haldin er og sú síðasta sem fram fer í stjórnartíð Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra SÞ. Í setningarræðu sinni í upphafi ráðstefnunnar sagðist Ban Ki-moon hafa skipað 150 konur í stjórnunarstöður á starfstíma sínum. Hann lagði mikla áherslu á að ábyrgð þeirra sem sæktu ráðstefnuna væri sú að fylgja fram stefnunni um aukið jafnrétti, að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum í hverri mynd sem er, til að tryggja að árangur yrði af starfinu hér. Geta má þess að nú er þegar farið að hvíslast á um eftirmann Ban Ki-moon. Sagt er að nú sé komið að Austur-Evrópu að skipa í starfið. Einnig er rætt um að nú sé kominn tími til að kjósa konu sem aðalritara SÞ. Allavega er ljóst að mikið mun ganga á áður en niðurstaða fæst um það.

Síðastliðinn mánudag var dagskrá þar sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðisráðherra, var í pallborði ásamt nokkrum öðrum og stóð sig vel. Á fundum eins og þessum kemur í ljós hversu mikils metið framlag Íslendinga til jafnréttismála er. Feðraorlofið sem tekið var upp í tíð Páls Péturssonar var mjög lofað á fundinum. Mörg ríki, þ.á.m. sum nágrannaríki okkar, hafa þó ekki treyst sér til að hrinda slíku orlofi í framkvæmd með sama hætti og gert hefur verið á Íslandi.

Á kvennaráðstefnunni koma fram ótal sjónarmið og lýsingar á kjörum kvenna og stúlkna í hinum ýmsu löndum. Það er ekki laust við að maður hrökkvi við þegar aðstæðum kvenna og stúlkna, t.d. í Afríku og Asíu, er lýst. Þá er einnig ljóst að hefðir annarra menningarheima flytjast til hins vestræna heims með vaxandi fólksflutningum. Átaks er þörf til að koma í veg fyrir limlestingar á stúlkum til þess að standa við fyrirheit SÞ um betra ástand árið 2030 sem er aðeins fimmtán ár í burtu. Við þörfum öll að leggja okkar lóð á vogarskálina til þess að tryggja jafna stöðu kvenna og karla í heiminum.

Þorsteinn Sæmundsson.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars 2016.