Af litlum neista
Kvikmyndamenning á Íslandi hefur þróast hratt á síðustu áratugum. Neytendur hafa orðið kröfuharðari, gæðin hafa aukist og kvikmyndað efni sem byggist á íslenskum sögum fær sífellt meiri dreifingu hjá alþjóðlegum streymisveitum og miðlum.Fyrir liggur að COVID-19-heimsfaraldurinn hefur haft ómæld efnahagsleg áhrif um allan heim. Þar hafa menning og listir tekið á sig stórt högg, ekki síst vegna aðgerða sem hamla miðlun listar og menningar. Stjórnvöld hafa brugðist við með margvíslegum hætti, svo list- og verðmætaskapandi fólk geti sinnt sinni köllun og starfi. Einn liður í því er 120 milljóna viðbótarframlag í Kvikmyndasjóð, sem skapar grundvöll til að setja ný og spennandi verkefni af stað og þannig sporna við samdrætti í atvinnugreininni. Slíkur neisti getur haft gríðarleg áhrif, skapað fjárfestingu til framtíðar, menningarauð og fjölda starfa.
Framleiðsla á vönduðu íslensku efni skilar sér í auknum útflutningstekjum, aukinni samkeppnishæfni Íslands og fleiri alþjóðlegum samstarfstækifærum. Margir ferðamenn hafa einmitt heimsótt Ísland eingöngu vegna einstakrar náttúrufegurðar og menningar sem birtist í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum víða um veröld. Ávinningurinn af slíkum heimsóknum er mikill og samkvæmt hagtölum eru skatttekjur af þeim mældar í tugum milljarða. Þegar ferðalög milli landa verða aftur heimil munu kvikmyndaferðalangar aftur mæta til leiks.
Upptökustaður nú og til framtíðar
Yfir 15 þúsund manns starfa við menningu, listir og skapandi greinar á Íslandi eða tæplega 8% vinnuafls. Þar af starfa á fjórða þúsund manns við kvikmyndagerð með einum eða öðrum hætti, og hefur atvinnugreinin þrefaldað ársveltu sína á einum áratug. Stjórnvöld fjárfestu í greininni fyrir tæpa 2 milljarða í fyrra, auk þess sem gott endurgreiðslukerfi laðar erlenda framleiðendur til landsins. Endurgreiðslur vegna framleiðslukostnaðar sveiflast nokkuð milli ára og nam í fyrra um 1,1 milljarði króna. Ólíkt öðrum útgjöldum felast góð tíðindi í aukinni endurgreiðslu, því hún eykst samhliða aukinni veltu greinarinnar – rétt eins og hráefniskostnaður í framleiðslu hækkar með aukinni vörusölu. Það eru góðar fréttir, en ekki slæmar.Árangur Íslands í baráttunni gegn COVID-19 hefur vakið athygli víða og meðal annars náð augum stærstu kvikmyndaframleiðenda heims. Erlendir fjölmiðlar hafa m.a. greint frá því, að sjálft Hollywood líti nú sérstaklega til þeirra landa sem hafa haldið faraldrinum í skefjum. Raunar er staðan sú, að nánast öll sjónvarps- og kvikmyndaframleiðsla hefur verið sett á ís nema í Suður-Kóreu og á Íslandi. Framleiðendur hafa þegar hafist handa og nú standa yfir tökur á nýrri þáttaröð fyrir Netflix hér á landi, undir stjórn Baltasars Kormáks. Þetta eru gleðitíðindi!
Fjögur markmið, tíu aðgerðir
Með fyrstu heildstæðu kvikmyndastefnunni er vörðuð raunsæ en metnaðarfull braut sem mun styðja við vöxt og alþjóðlega samkeppnishæfni kvikmyndagerðar á Íslandi. Markmiðin eru fjögur. Í fyrsta lagi að hlúa að kvikmyndamenningu, styrkja íslenska tungu og efla miðlun menningararfs. Í öðru lagi viljum við styrkja framleiðslu og innviði kvikmyndagerðar. Í þriðja lagi á að efla alþjóðleg tengsl og alþjóðlega fjármögnun ásamt kynningu á Íslandi sem tökustað. Og síðast en ekki síst er stefnt að eflingu kvikmyndalæsis og kvikmyndamenntunar sem nái upp á háskólastig. Hverju markmiði kvikmyndastefnunnar fylgja tillögur að aðgerðum, kostnaðaráætlun og ábyrgðaraðili sem á að tryggja framkvæmd og eftirfylgni.Rík sagnahefð Íslendinga hefur skilað okkur hundruðum kvikmynda, heimilda- og stuttmynda, sjónvarpsþátta og öðru fjölbreyttu efni á síðustu áratugum. Ísland er orðið eftirsóttur tökustaður og sífellt fleiri alþjóðlegar stórmyndir eru framleiddar á Íslandi. Fjárfesting í kvikmyndagerð er ekki bara gott viðskiptatækifæri heldur einnig nauðsynlegt afl í mótun samfélagsins. Íslensk kvikmyndagerð viðheldur og eflir íslenska tungu, leikur veigamikið hlutverk í varðveislu menningararfsins og eflir sjálfsmynd þjóðarinnar. Fjárfesting í þessari atvinnugrein mun því ávallt skila okkur ríkulega til baka, á fleiri en einn veg.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. maí 2020.