Tillögur framsóknarmanna í skattamálum hafa vakið athygli. Stórar kerfisbreytingar vekja þó ætíð spurningar og því er ástæða til að skýra nánar hvað felst í þessari róttæku aðgerð sem ætlað er að einfalda skattkerfið og gera það sanngjarnara.
Við framsóknarmenn viljum nýta tekjuskattskerfið til að draga úr byrðum millitekjufólks en í þeim hópi eru flestir launþegar. Það hefur meðal annars í för með sér að breiðu bökin taka aðeins meira á sig en um leið þurrkum við út óæskileg jaðaráhrif. Í dag er það þannig að fólk með meðaltekjur stendur frammi fyrir mjög háu tekjuskattsþrepi og of litlum hvata til að auka tekjur sínar með meiri vinnu. Jaðarskatturinn svokallaði, eða sá skattur sem greiddur er af næstu viðbótarkrónu í launaumslagið, er of hár. Við viljum breyta þessu. Það gerum við með millistéttaraðgerð í skattamálum líkt og með Leiðréttingunni sem var millistéttaraðgerð í skuldamálum og Fyrstu fasteign sem er vinnuhvetjandi úrræði fyrir ungt fólk til að létta því kaupin á sinni fyrstu fasteign.
Framsókn vill lækka tekjuskattsprósentuna, þ.e. staðgreiðslu opinberra gjalda, fyrir einstaklinga með lágar tekjur og millitekjur samhliða því að tekjutengja persónufrádrátt þannig að hann falli niður þegar ákveðnum tekjum er náð. Barnabætur verði réttur barnsins og fylgi barninu. Þær hækki verulega en skerðingarhlutfall hækki á móti þannig að barnabætur komi tekjulágum best. Vaxtabætur falli niður í núverandi mynd en sparnaði vegna þessa verði beint til lágtekjuhópa með útborganlegum persónufrádrætti. Jafnframt viljum við taka upp einstaklingsframtöl og hætta samsköttun hjóna. Með öllum þessum aðgerðum er hægt að lækka skatta hjá meginþorra almennings og auka hvatann til vinnu.
Einfalt í framkvæmd
Þetta er einfalt í framkvæmd. Neðra tekjuskattsþrep í staðgreiðslu skatta, 25%, gerir það að verkum að einstaklingur með 600 þúsund króna tekjur á mánuði greiðir 150 þúsund krónur í skatta. Skattþrepið er aðeins eitt og enginn persónufrádráttur af þessum tekjum. Taki viðkomandi ákvörðun um að vinna sér inn 40 þúsund króna viðbótartekjur greiðir hann fjórðunginn, eða 10 þúsund krónur, í skatt eftir breytingu. Einstaklingur með 100 þúsund króna tekjur á mánuði greiðir engan skatt heldur fær um 50 þúsund króna persónufrádrátt útborgaðan. Ráðstöfunartekjur beggja hækka frá núverandi kerfi.
Með þessari róttæku einföldun á skattkerfinu vinnst þrennt:
- Tekjujöfnun eykst enn frekar. Íslendingar standa mjög framarlega í tekjujöfnun í alþjóðlegum samanburði. Með frekari tekjujöfnun gerum við enn betur á því sviði.
- Aukinn hvati til vinnu. Lægri jaðarskattur á millitekjur er vinnuhvetjandi fyrir mikinn meirihluta launafólks.
- Jafnréttismál. Samsköttun dregur úr hvata maka með lægri laun til að fara út á vinnumarkaðinn en í meirihluta tilvika eru það konur. Afnám samsköttunar er því jafnréttismál. Atvinnuþátttaka 16-74 ára karla er nú um 86% en 79% hjá konum. Væri ekki afnám samsköttunar gott tækifæri til að minnka þennan mun og auka enn frekar á forskot okkar Íslendinga í jafnréttismálum?
Framsókn hefur unnið að útfærslu þessara hugmynda um alllangt skeið. Þeirri vinnu, sérstaklega samspili við almannatryggingakerfið, er ekki lokið og viljum við vinna með öðrum flokkum að nánari útfærslu á nýja kjörtímabilinu. Við teljum að fjármálaáætlun hins opinbera, sem leggja skal fram næsta vor, geti tekið mið af þessum hugmyndum og þær þannig komið til framkvæmda strax 1. janúar 2018. Tillögurnar eiga rætur sínar að rekja til hugmynda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem síðar voru nánar útfærðar af verkefnisstjórn Samráðsvettvangs um aukna hagsæld.
Það er mér mikil ánægja að geta kynnt þessar hugmyndir fyrir landsmönnum og við framsóknarmenn vonumst til þess að fá styrk til þess að geta hrinnt þessum mikilvægu úrbótum í framkvæmd.
Sigurður Ingi Jóhannsson
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. október 2016.