Categories
Greinar

Landið allt í byggð!

Deila grein

28/07/2016

Landið allt í byggð!

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraEinn af þeim málaflokkum sem ég er að takast á við þessa dagana eru byggðamál. Þrátt fyrir góðan vilja hefur ekki tekist með fullnægjandi hætti að sporna við þeim raunveruleika að sumar byggðir í landinu þurfi stanslaust að standa í baráttu við að verja sinn hlut og berjast gegn því að þjónusta minnki og að fólki fækki.

Skattkerfið
Þessu þarf að breyta. Við Íslendingar erum hinsvegar ekki eina þjóðin sem glímir við þennan vanda. Um allan heim hefur þessi þróun átt sér stað og því ekki úr vegi að líta á hvaða úrræði hafa gagnast vel þar.

Í Noregi, Danmörku og Svíþjóð hefur skattkerfinu verið beitt til þess að styrkja byggðir og skapa þannig jákvæða hvata fyrir fólk að setjast að á dreifbýlum svæðum og hefur árangurinn af þessum aðgerðum verið góður. Það er okkur lífsnauðsynlegt að hringinn í kringum landið sé blómleg byggð og það er ekki bara tilfinning heldur einnig þjóðhagslega mikilvæg aðgerð.

Í ljósi þess hef ég því sett af stað vinnu sem miðar að því að skoða hvernig beita megi skattkerfinu með það að augnarmiði að styrkja byggðir landsins. Byggðastofnun leiðir þá vinnu.

Þetta er í takt við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkana sem innihélt sérstakan kafla um byggðamál og þar er lögð rík áhersla á að ná árangri í byggðamálum.

Opinber störf
Á seinustu árum hefur orðið mikil þróun er varðar möguleika til þess að störf geti verið án staðsetningar þökk sé tækniframförum og breyttum viðhorfum. Þetta gefur opinberum stofnunum svigrúm til þess að dreifa sínum starfsmönnum um landið þar sem starfsmenn geta valið sér sína starfsstöð og hafa nokkrar stofnanir gert það með góðum árangri. Það er ekkert lögmál að opinber störf skuli geirnegld á höfuðborgarsvæðið. Aðalmarkmið ríkisins hlýtur þó alltaf að vera að tryggja góða innviði svo mismunandi svæði á landinu séu samkeppnishæf og fjölbreytt atvinnulíf geti dafnað.

Byggðaáætlun
Um áramótin hófst svo vinna við að móta nýja byggðaáætlun til næstu sjö ára. Unnið er eftir nýjum lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir sem samþykkt voru á Alþingi sl. sumar. Við gerð byggðaáætlunar er haft viðamikið samráð við ráðuneyti, sveitarfélög og landshlutasamtök sveitarfélaga. Þar að auki getur almenningur sent inn tillögur á heimasíðu Byggðastofnunar. Með þessu næst yfirsýn yfir aðgerðir í byggðamálum þvert á stjórnsýsluna og áhersluatriði heimamanna fá að njóta sín.

Eitt af þeim atriðum sem við leggjum áherslu á er að íbúar landsins alls njóti sömu tækifæra hvað varðar aðgengi að opinberri grunnþjónustu. Þar er um að ræða helstu svið opinberrar þjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu, menntun, samgöngur, fjarskipti, löggæslu og menningu.

Að lokum
Það er okkur lífsnauðsynlegt sem þjóð að standa saman að uppbyggingu og framförum. Við verðum því að sameinast um að ráðast í aðgerðir sem tryggja að íbúar um land allt fái notið þeirrar þjónustu sem kröfur eru gerðar um í nútímasamfélagi.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist á www.feykir.is 25. júní 2016.