Categories
Greinar

Látum rödd ungmenna heyrast

Deila grein

17/05/2018

Látum rödd ungmenna heyrast

Bæjarstjórn Hveragerðis samþykkti 2010 að stofna unmennaráð í bænum. Í framhaldinu voru sjö fulltrúar skipaðir í ráðið, fjórir þeirra komu úr nemendaráði Grunnskólans og þrír valdir af menningar-, íþrótta- og frístundanefnd. Því miður hefur ungmennaráðið aldrei náð flugi og í samræðum mínum við bæjarbúa hefur komið í ljós að fæstir vita að ungmennaráð sé starfandi í bænum. Þessu þarf að breyta.

Í æskulýðslögum nr. 70/2007 er kveðið á um að sveitarfélög stofni ungmennaráð og eru þau hugsuð til að vera sveitastjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að ungt fólk hafi tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélagi sínu. Með þessu er m.a. komið til móts við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Ekki er gott að segja til um ástæður þess að ungmennráð Hveragerðisbæjar hafi ekki náð því flugi sem vonast var eftir. Ekki er nóg að stofnsetja ungmennaráð, fleira þarf að koma til. Getur verið að bæjarstjórn hafi ekki staðið sig nógu vel í að virkja ráðið og leita til þess með málefni sem snerta ungt fólk? Frjáls með Framsókn í Hveragerði telja svo vera og vilja virkja ungmennaráðið mun betur, til að ungmenni hafi þau áhrif sem þau eiga að hafa.

Frjáls með Framsókn í Hveragerði telja grundvöll ungmennaráðsins sé að ungt fólk hafi tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélagi sínu og fái tækifæri til að koma að ákvörðunum sem snerta líf þeirra. Til að svo megi verða viljum við halda t.d. árlega ungmennaþing, þar sem ungmenni bæjarins geti rætt og ályktað um þau mál sem helst brenna á þeim hverju sinni. Auk þess vilja Frjáls með Framsókn opna stjórnsýslu bæjarins á þann hátt að ungmennaráðið eigi áheyrnafulltrúa í flestum nefndum bæjarins, með málfrelsi og tillögurétti. Hver sá sem uppfyllir kröfur um setu í ungmennaráðinu getur boðið sig fram sem áheyrnafulltrúi og kosið með lýðræðislegum hætti á milli áhugasamra á ungmennaþinginu. Öflugt starf ungmennaráðsins eykur bæði ungmennalýðræði og íbúalýðræði, en til að svo verði er nauðsynlegt að bæjarstjórnin styðji vel við bakið á ungmennaráðinu og taki mark á því. Við teljum að ef virkni og áhrif ungmennaráðsins aukist, þá aukist áhugi ungmenna á starfinu og um leið verða áhrif þeirra meiri.

Garðar R. Árnason

Höfundur skipar 1. sæti Frjáls með Framsókn í Hveragerði.