Þingmenn Framsóknarflokksins hafa frá hruni, barist fyrir bættum hag heimilanna. Framsóknarflokkurinn varði myndun minnihluta ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn vantrausti, vorið 2009. Með þeim skilmálum að unnið yrði að því að færa til baka þann forsendubrest sem varð á verðtryggðum húsnæðislánum. Framsóknaflokkurinn lagði á þeim tíma til 20 % niðurfærslu á stökkbreyttum verðtryggðum lánum. Skemmst er frá því að segja að sú aðgerð náði ekki fram að ganga. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem kenndi sig við réttlæti og jöfnuð, hlustaði ekki. Taldi sig ekki geta komið fram með almenna aðgerð til hjálpar heimilum landsins. Síðan þá hafa þingmenn Framsóknarflokksins komið fram með tillögurnar Þjóðarsátt árið 2010 og Plan B haustið 2011. Í kosningabaráttunni árið 2013 setti Framsóknarflokkurinn heimilin í forgang, töluðu um almenna skuldaleiðréttingaaðgerð og afnám verðtryggingar. Flokkurinn er nú komin í ríkisstjórn og lætur verkin tala. Nú, aðeins einu og hálfu ári eftir kosningar er leiðréttingin í höfn.
Niðurstöður birtar
Þann 11. nóvember fengu um 90 % þeirra er sóttu um leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum, niðurstöðurnar birtar inni á vefnum leiðrétting.is. Unnið er hörðum höndum við útreikning þeirra lána sem eftir eru og áætlað er að niðurstöður muni birtast á næstu 2 – 3 vikum.
Leiðréttingin, tvær aðgerðir
Leiðréttingin skiptist í tvær aðgerðir. 80 milljarða króna leiðréttingu sem kemur til framkvæmdar í einu lagi og skiptir láninu niður í frumlán og leiðréttingalán. Lántaki greiðir eingöngu af frumláni og leiðréttingarlánið fellur niður á einungis rúmu ári. Það er styttri tími en áætlað var. Ástæða þess að ákveðið var að stytta tímann var að minnka vaxtakostnað til fjármálastofnanna og setja meira til heimilanna. Það er afar jákvætt. Hinn hluti leiðréttingarinnar eru 70 milljarðar sem fara í skattleysi séreignasparnaðs við inngreiðslu á höfuðstól lána.
Leiðréttingin nær til 91 þúsund einstaklinga í gegnum beina niðurfellingu. Meðal fjárhæð leiðréttingarinnar er 1,350,000 krónur. Meðal fjárhæð fyrir hjón er 1,510,000 krónur. Hver einstaklingur fær að jafnaði 1,100,000 krónur.
Einstaklingar með 330 þúsund á mánuði og hjón þar sem hvort fyrir sig hefur 450 þúsund í mánaðarlaun, er tíðasta gildið í leiðréttingunni. Meðalheildarlaun á mánuði á Íslandi eru 520 þúsund krónur.
Forsendubresturinn leiðréttur
80 milljarða króna leiðréttingin leiðréttir forsendubrest umfram 5,8 %. Skattfrelsi við innborgum séreignasparnaðar á höfuðstól, það eru 20 milljarðar af þeim 70 færa viðmið leiðréttingarinnar niður í 4 % verðbólgu yfir viðmiðunartímabilið við fullnýtingu leiðréttingar. Framlag ríkisins til leiðréttingarinnar leiðréttir því alla verðbólgu áranna 2008 – 2009 yfir 4 %. Inngreiðslur séreignasparnaðar eru hreint viðbót við það.
Fjármagnað í gegnum bankaskatt
Beina leiðréttingin, það eru 80 milljarðarnir koma frá þrotabúum gömlu bankanna. Undanþága slitabúa gömlu bankanna frá skattheimtu var afnumin þannig að hægt væri að sækja peninga beint til kröfuhafanna sem eiga þrotabúin. Um er að ræða nýjan tekjustofn þar sem ríkissjóður hefur eingöngu milligöngu. Ánægjulegt er að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sýni kjark og þor í þessum efnum. Kominn var tími til að þær fjármálastofnanir sem fóru ógætilega, séu krafðar til þess að koma á móts við heimili landsins og skila hluta skaðans til baka.
Fleiri aðgerðir væntanlegar
Leiðréttingin, það að leiðrétta verðtryggð húsnæðslán, er eingöngu einn liður af 10 úr aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna. Aðgerðaáætlunin tekur jafnframt á öðrum mikilvægum þáttum eins og t.d. leigumarkaðnum og verðtryggingunni. Á næstu vikum koma frumvörp inn í þingið er varða leigumarkaðinn. Taka þau til þátta eins og húsnæðisbóta sem er jöfnun á stuðningi við þá sem eiga og leigja húsnæði. Uppbyggingu leigufélaga, framboðs og leiguhúsnæðis og lækkun leigugjalda.
Verðtryggingavaktin hefur verið sett á fót. Tilgangur hennar er að tryggja samfellu í framgangi áætlunar um afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum. Frumvörp er varða afnám verðtryggingar verða lögð fram á vorþingi.
Óhætt er að segja að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, standi með heimilum landsins.
Elsa Lára Arnardóttir
Greinin birtist í DV 18. nóvember 2014
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.