Í vikunni mælti ég fyrir frumvarpi til laga sem felur í sér lengingu fæðingarorlofs. Verði frumvarpið samþykkt á Alþingi mun réttur foreldra til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks lengjast úr níu mánuðum í tólf mánuði.
10 milljarða aukning til barnafjölskyldna
Endurreisn fæðingarorlofskerfisins, með hækkun hámarksgreiðslna og lengingu fæðingarorlofs, hefur frá upphafi verið á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar sem nú situr. Hámarksgreiðslur hækkuðu um síðustu áramót en miðað við boðaða lengingu og hækkun hámarksgreiðslna má gera ráð fyrir að heildarútgjöld til fæðingarorlofs verði 20 milljarðar árið 2022 samanborið við 10 milljarða árið 2017 á verðlagi hvors árs. Sem félags- og barnamálaráðherra hef ég lagt gríðarlega áherslu á að leiða þetta mál til lykta og er afar ánægður að sjá nú til lands. Við vitum öll að ungbörnum er fyrir bestu að vera sem mest í umsjá foreldra sinna og það eiga lögin að tryggja.
Fæðingarorlof lengt í 12 mánuði
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lenging á rétti foreldra til fæðingarorlofs komi til framkvæmda í tveimur áföngum. Í fyrri áfanga lengist samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks um einn mánuð vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020. Þannig bætist einn mánuður við sjálfstæðan rétt hvors foreldris um sig sem verður þá fjórir mánuðir í stað þriggja mánaða eins og nú. Þá verður sameiginlegur réttur foreldra til fæðingarorlofs tveir mánuður sem þeir geta skipt með sér að vild í stað þriggja mánaða líkt og nú.
Í síðari áfanga lengist samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks um tvo mánuði vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar. Þannig bætist einn mánuður við sjálfstæðan rétt hvors foreldris um sig sem verður þá fimm mánuðir í stað fjögurra mánaða. Sameiginlegur réttur foreldra til fæðingarorlofs verður áfram tveir mánuðir sem foreldrar geta skipt með sér að vild.
Mikilvægt fyrir börn að báðir foreldrar taki fæðingarorlof
Að mínu mati er sú tilhögun á skiptingu fæðingarorlofsréttar milli foreldra sem fram kemur í frumvarpinu vel til þess fallin að ná markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof þess efnis að tryggja réttindi barna til samvista við báða foreldra. Eins að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Í því sambandi má nefna að niðurstöður rannsókna á íslenska fæðingarorlofskerfinu benda til þess að ábyrgð vegna umönnunar barna sé nú jafnari milli foreldra en áður var og því ber að fagna.
Fæðingarorlofskerfið á að vera þannig uppbyggt að við sem samfélag leggjum áherslu á að þeir sem eiga rétt innan þess nýti réttinn og nýti hann til fulls. Þannig náum við þeim árangri sem stefnt er að með þessum réttindum og tryggjum hagsmuni barna.
Fæðingarorlofslöggjöfin 20 ára – heildarendurskoðun
Árið 2020 verða tuttugu ár liðin frá gildistöku laganna og þykir samhliða lengingu og hækkun hámarksgreiðslna tímabært að taka þau til heildarendurskoðunar. Sérstök nefnd hefur það hlutverk með höndum og er stefnt að því að hún ljúki störfum næsta haust. Lögin voru á margan hátt byltingarkennd á sínum tíma enda var Ísland fyrsta landið í heiminum til að veita feðrum og mæðrum jafnan sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Nú er hins vegar kominn tími til að endurskoða ýmis ákvæði þeirra í takt við tímann.
Jafnframt þarf að huga að því hvað tekur við þegar rétti foreldra til fæðingarorlofs lýkur og hef ég hafið samtal við sveitarfélögin um að unnið verði að því að tryggja að börnum bjóðist dvöl á leikskóla við tólf mánaða aldur. Í mínum huga er alveg ljóst að þetta tvennt verður að haldast í hendur. Áfram veginn fyrir börnin.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. nóvember 2019.