Lítil og meðalstór fyrirtæki sinna lykilhlutverki á atvinnumarkaðnum hér á landi. Þau tryggja meirihluta Íslendinga atvinnu, stuðla að fjölbreyttri atvinnu ásamt því að vera lykillinn að uppbyggingu og þróun þvert yfir landið. Fyrir Covid sýndi tölfræðin að lítil og meðalstór fyrirtæki greiddu laun rúman meirihluta landsmanna, eða kringum 70% þeirra. Líklega hefur tölfræðin breyst töluvert eftir komu Covid, en talið er að staðan verði aftur sambærileg þegar við höfum náð tökum á veirunni.
Skattar og álögur
Lítil og meðalstór fyrirtæki eiga mörg hver erfitt með greiðslubyrðina á m.a. tryggingagjaldi og opinberum álögum. Þetta hindrar vöxt þeirra og leiðir jafnvel til þess fyrirtækin neyðast til að hætta rekstri. Almennt er um litla upphæð gjalds að ræða í tilfelli opinberra álagna, en þegar á botninn er hvolft þá geta þetta orðið töluverðar fjárhæðir sem geta reynst mörgum litlum og meðalstórum fyrirtækjum íþyngjandi. Þetta á sérstaklega við um fyrirtæki í upphafi rekstrar.
Framsókn vill bæta rekstrarumhverfið
Við í Framsókn erum vel meðvituð um mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja hér á landi og viljum bæta hag þeirra. Framsókn vill taka upp þrepaskipt tryggingagjald og lækka það á lítil og meðalstór fyrirtæki. Einnig vill Framsókn létta undir greiðslubyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja á opinberum álögum, til dæmis úttektum eftirlitsaðila og leyfisveitingar frá hinu opinbera. Þetta eru raunhæfar lausnir sem geta aðstoðað þessi fyrirtæki við að koma rekstri sínum á réttan kjöl.
Að auki vill Framsókn nota skattkerfið til að jafna aðstöðu fólks á landsbyggðinni ásamt því að styðja betur við rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þannig er skattkerfið notað til að fjárfesta í fólki og hvetja til fjölþættari verðmætasköpunar.
Með leiðum sem þessum getum við bætt rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, og með því stuðlað að auknum og fjölbreyttum atvinnumöguleikum um allt land.
Stefán Vagn Stefánsson
Höfundur er oddviti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi og yfirlögregluþjónn í Skagafirði.
Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 24. september 2021.