Fréttamyndir sem bárust frá borginni Aleppo í Sýrlandi í síðustu viku voru óhugnanlegar. Stjórnarher Sýrlands, með stuðningi rússneska flughersins og stjórnvalda í Íran, tókst með vægðarlausum hætti að ná borginni úr höndum uppreisnarmanna og skeytti engu um afdrif óbreyttra borgara. Fréttir hafa borist um skipulagðar aftökur á almenningi og við blasir að stríðsglæpir hafi verið framdir í borginni.
Tilgangurinn virðist ekki eingöngu vera sá að ná borginni, heldur senda í leiðinni skilaboð til annarra borga og svæða um hernaðarmátt og grimmd stjórnvalda. Að sýna óbreyttum borgurum að þeir geti ekki staðið á hliðarlínunni og refsingin fyrir beinan eða óbeinan stuðning við uppreisnarmenn sé hörð. Að fá almenning til að þrýsta á uppreisnarmenn í sínum röðum til að leggja niður vopn, enda sé gjaldið fyrir áframhaldandi átök óbærilega hátt.
Íslensk stjórnvöld hafa í félagi við aðrar Norðurlandaþjóðir ítrekað kallað eftir því að alþjóðalög séu virt og mannúðarsamtök komist á átakasvæði til að veita aðstoð og hjúkra. Það er því mikið fagnaðarefni, að ályktun þar að lútandi skyldi vera samþykkt í öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna á mánudaginn. Að auki er í henni kallað eftir vernd á hjúkrunarfólki og veitendum mannúðaraðstoðar og að eftirlitssveit á vegum Sameinuðu þjóðanna fari til Aleppo og fylgist þar með málum. Hitt er grátlegt, að öryggisráðið hafi ekki ályktað miklu fyrr í þessa veru því ástandið hefur lengið verið hræðilegt í Aleppo. Það er einlæg von mín, að ályktun mánudagsins marki tímamót og viðbrögð öryggisráðsins verði framvegis skilvirkari en hingað til.
Þörfin geigvænleg
Fjárstuðningur íslenskra stjórnvalda við mannúðarstarf Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossins og annarra hjálparsamtaka sem aðstoða Sýrlendinga nemur um 600 milljónum króna á þessu ári, sem er tvöföldun frá síðasta ári. Þörfin fyrir aðstoð er geigvænleg, enda er landið sundurtætt eftir fimm ára stríð. Um hálf milljón manna hefur dáið, ríflega 11 milljónir manna hafa flúið heimili sitt og 13,5 milljónir þurfa á brýnni aðstoð að halda. Aðstæður þessa fólks eru slæmar, sérstaklega á köldum vetri þar sem börn og fullorðnir þurfa hlý föt, mat, húsaskjól og öryggi. Ekkert af þessu er auðvelt að tryggja við núverandi aðstæður og þess vegna er svo mikilvægt að mannúðarsamtök fái að athafna sig.
Ísland er í hópi þeirra ríkja sem hefur með milligöngu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna boðið Sýrlendingum alþjóðlega vernd og fasta búsetu. 70 manns eru þegar komnir til landsins og í janúar bætast 47 einstaklingar í hópinn, sem þá mun alls telja 117 manns. Í flestum tilvikum er um ræða barnmargar fjölskyldur sem hafa ríka þörf fyrir vernd. Þá eru ótaldir þeir sem hingað hafa ferðast á eigin vegum og fengið alþjóðlega vernd á grundvelli útlendingalaga. Alls hafa íslensk stjórnvöld varið 2 milljörðum króna til að mæta flóttamannavandanum sem á upptök sín í átökunum í Sýrlandi.
Hér í landi allsnægtanna styttist í jólin – hátíð ljóss og friðar. Í Aleppo blasa hins vegar við húsarústir, mannvonska og myrkur. Ljóstýra kann þó að hafa kviknað með þeim aðgerðum sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur loksins ákveðið að grípa til, þótt þær séu aðeins hænuskref á langri leið.
Lilja Alfreðsdóttir
Grein birtist í Fréttablaðinu 21. desember 2016.[fusion_builder_container hundred_percent=”yes” overflow=”visible”][fusion_builder_row][/fusion_text][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]