Categories
Greinar

Öryggispúði fyrir Ísland

Deila grein

30/12/2016

Öryggispúði fyrir Ísland

lilja____vef_500x500Ýktar efnahags­sveiflur hafa í gegnum tíðina valdið Íslendingum miklu tjóni. Eftir markvissa endurreisn undanfarinna ára blasir nú við stjórnvöldum sögulegt tækifæri til að breyta efnahagskerfi Íslands til frambúðar. Stofnun Stöðugleikasjóðs gæti markað vatnaskil í sögu þjóðarinnar og tryggt hagsæld í sessi. Markmið slíks sjóðs er í mínum huga skýrt; að draga úr hagsveiflum og stuðla að efnahagslegum stöðugleika til langs tíma. Næsta ríkisstjórn er í dauðafæri til að hlaupa með bolt­ann í mark, ef hún hefur skýra sýn og dug til að hrinda henni í framkvæmd.

Stöðugleikaframlög nýtist allri þjóðinni

Grunninn að Stöðugleikasjóði Íslands mætti leggja með hluta af stöðugleikaframlögum slitabúanna. Raunar er verðmæti þeirra mun meira en upphaflega var talið og því mætti nota umframverðmætin til að koma Stöðugleikasjóðnum á fót. Féð mætti nýta að hluta til að kaupa gjaldeyri af Seðlabankanum og minnka þannig óþarflega stóran gjaldeyrisforða bankans. Slíkt myndi létta undir með Seðlabankanum, sem ber umtalsverðan kostnað af gjaldeyrisforðanum. Stöðugleikasjóðurinn gæti hins vegar látið gjaldeyrinn vinna fyrir sig, með svipuðum hætti og Norski olíusjóðurinn gerir fyrir frændur okkar í Noregi. Til lengri tíma litið yrði Stöðugleikasjóðurinn svo fjármagnaður af útflutningsgreinunum; með auðlindarentu frá fyrirtækjum í sjávarútvegi og ferðaþjónustu, arðgreiðslum frá opinberum orkufyrirtækjum og afgangi af fjárlögum þegar þannig árar. Þá gæti ríkissjóður lagt fasteignir sínar erlendis inn í sjóðinn í upphafi og leigt þær af sjóðnum eftir þörfum – t.d. undir starfsemi utanríkisþjónustunnar. Þar með yrði til grunnur að fasteignasafni íslenska Stöðugleikasjóðsins.

Fjárfest til lengri tíma með betri ávöxtun

Íslenski Stöðugleikasjóðurinn myndi fjárfesta til lengri tíma og fara að fordæmi Norska olíusjóðsins sem fjárfestir í erlendum skuldabréfum, hlutabréfum og fasteignum. Það gefur betri raun en að fjárfesta í ríkisvíxlum erlendra ríkja sem bera litla sem enga vexti nú um stundir. Að sama skapi þarf skýra umgjörð um Stöðugleikasjóðinn því freistnivandinn getur verið mikill, þegar kallað er á fjárveitingar í samfélaginu og nóg er til í stórum sjóði. Þannig þarf til dæmis að vera ljóst að slíkur Stöðugleikasjóður er ekki ætlaður til að styðja við bankakerfið þegar illa árar né heldur má nýta sjóðinn til verkefna á vegum ríkissjóðs, nema eftir ströngum reglum sem öllum eru ljósar fyrirfram og við vel skilgreindar aðstæður. Í Noregi má nýta að hámarki 4% af verðmæti olíusjóðsins í fjárlög, en aðeins ef raunávöxtun stendur undir því þar sem ekki má ganga á höfuðstólinn. Með vísan í þessa reglu voru um 180 milljarðar norskra króna færðar úr sjóðnum í fjárlögin á síðasta ári til að vega á móti erfiðleikum í olíuiðnaðinum. Á nákvæmlega sama hátt geta Íslendingar notað sinn stöðugleikasjóð sem sveiflujöfnunartæki og öryggispúða fyrir efnahagslífið.

Velsæld okkar byggir á útflutningi

Í gegnum tíðina hafa útflutningsgreinarnar skapað mikil verðmæti. Þessum verðmætum eigum við að safna þegar vel gengur og nýta til hagsbóta fyrir þjóðina alla þegar þörf krefur. Nú stendur okkar útflutningsdrifna hagkerfi á tímamótum vegna gríðarlegs vaxtar í ferðaþjónustu, sem hefur með öðrum útflutningsgreinum og háum innlánsvöxtum skapað meira innflæði erlends gjaldeyris en dæmi eru um í hagsögu Íslands. Þótt auknar útflutningstekjur séu góðs viti hefur þörfin fyrir varkárni, framsýni og skýra sýn í efnahagsmálum sjaldan verið brýnni en nú.

Til að vinna gegn áhrifum þessa mikla gjaldeyrisinnflæðis á íslensku krónuna hefur Seðlabanki Íslands kerfisbundið keypt gjaldeyri og safnað í góðan gjaldeyrisvaraforða, sem samsvarar nú um 40% af landsframleiðslu. Sá galli er á gjöf Njarðar, að kostnaður við slíkt forðahald er umtalsverður vegna þess vaxtamunar sem er milli Íslands og helstu viðskiptaríkja. Kostnaðurinn eykst eftir því sem forðinn stækkar og því er ljóst, að við getum ekki stuðst við þessa aðferðafræði til allrar framtíðar. Hafa ber í huga að forðinn er ávaxtaður til skamms tíma, t.d. í erlendum ríkisvíxlum sem bera lága vexti, á meðan ávöxtun til lengri tíma myndi skila þjóðinni umtalsvert betri árangri. Þannig gæti Stöðugleikasjóður fjárfest til hagsbóta fyrir þjóðina.

Grundvallarbreyting hefur orðið á efnahagskerfinu

Efnahagsleg endurreisn Íslands hefur gengið vel. Hagkerfið einkennist af þróttmiklum hagvexti, atvinnuleysi er lítið, skuldir heimila og fyrirtækja hafa minnkað verulega, góður afgangur er á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins, ríkissjóður er rekinn með afgangi fjórða árið í röð og með stöðugleikaframlögum frá slitabúum bankanna er um þúsund milljarða króna afgangur á fjárlögum ársins 2016. Þótt sumt í þessari haglýsingu hljómi kunnuglega hefur ein grundvallarbreyting orðið frá fyrri tímum, þar sem hrein erlend staða þjóðarbúsins er nú jákvæð í fyrsta sinn frá því mælingar hófust fyrir nærri 60 árum. Þetta þýðir að eignir Íslendinga í útlöndum eru meiri en skuldirnar, sem skapar mikil tækifæri fyrir land og þjóð. Hagkerfið er smám saman að laga sig að þessari breytingu, en við þurfum greina betur hverjar afleiðingarnar geta verið á útflutningsgreinarnar og uppbyggingu hagkerfisins alls.

Tökum saman höndum

Á undanförnum 15 árum hafa ýmsir viðrað hugmyndir um stofnun sjóðs með svipað hlutverk og Stöðugleikasjóðurinn. Þær hafa lítið verið ræddar en almennt hefur verið gengið út frá því að auðlindagjöld standi undir sjóðnum, bæði stofnframlagi og vexti hans. Slíkt er vissulega mögulegt en með þeirri leið myndi það taka langan tíma að byggja upp myndarlegan höfuðstól til ávöxtunar. Skilvirkara væri að nota hluta af stöðugleikaframlögunum sem höfuðstól Stöðugleikasjóðsins – kaupa upp hluta af gjaldeyrisforða Seðlabankans og stækka sjóðinn svo smám saman með tekjum af auðlindarentu frá ári til árs.

Stöðugleika, söfnunar, þróunar, lífeyrisauðlinda eða gjaldeyrisforðafjárfestingasjóðir gegna mikilvægu hlutverki í hagstjórn og peningastefnu margra ríkja. Hverrar tegundar sem sjóðirnir eru þurfa þeir að taka mið af stöðu viðkomandi hagkerfis, þarfa þess og framtíðarskuldbindinga. Mikilvægt er að fjárfestingastefnan sé í fullu samræmi við ríkisfjármálastefnuna, en sé ekki einangruð frá þeim veruleika sem sjóðurinn á að þjóna. Þannig ætti eitt meginmarkmiða íslenska Stöðuleikasjóðsins að vera að tryggja sjálfbæra ytri stöðu þjóðarbúsins og koma í veg fyrir „hollensku veikina,“ svo uppgangur í einni útflutningsgrein skerði ekki samkeppnishæfni annarra. Það er tímabært að við tökum saman höndum og breytum hugmyndinni í veruleika.

Spennandi efnahagsár framundan

Áramót marka nýtt upphaf, þar sem við segjum skilið við það liðna og horfum bjartsýn fram á við. Í þetta skiptið höfum við ríkari ástæðu til bjartsýni en oftast áður, þar sem sjaldan hefur árað eins vel í efnahagslegu tilliti. Það er mikilvægasta verkefni stjórnmálanna á efnahagsárinu 2017, að skapa efnahagslífinu umgjörð sem stuðlar að stöðugleika til langs tíma. Tækifærið hefur aldrei verið betra. Næstu skref í hagstjórninni miða að frekari losun fjármagnshafta, áframhaldandi niðurgreiðsla skulda ríkissjóðs og svo stofnun Stöðugleikasjóðs.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist á www.kjarninn.is 30. desmeber 2016.[fusion_builder_container hundred_percent=”yes” overflow=”visible”][fusion_builder_row][/fusion_text][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]