Categories
Greinar

Við áramót

Deila grein

31/12/2016

Við áramót

sigurduringi_vef_500x500Við áramót lítum við yfir farinn veg og hvert og eitt okkar vegur og metur hvernig árið sem er að líða hefur verið fyrir okkur og okkar nánustu. Fyrir suma hefur þetta verið ár vaxtar og gæfu, framfara, velmegunar og góðra minninga. Fyrir aðra ár sársauka, vonbrigða og trega. Flest upplifum við breytingar í einni eða annarri mynd, breytingar á persónulegum högum og breytingar á því umhverfi sem við lifum í. Sumum breytingum fögnum við, öðrum ekki. En flest reynum við að vera trú þeim verkefnum sem berast okkur í hendur og inna þau af hendi eins vel og unnt er.

Nútímamanninum er ásköpuð ákveðin framfaratrú sem meðal annars birtist í því að við trúum því að hver kynslóð hafi það betra en kynslóðin á undan. Þessi framfaratrú lifði góðu lífi alla 20. öldina, þegar Ísland nánast stökk úr stöðnuðum heimi fortíðar fram á sjónarsviðið sem frjáls og fullvalda þjóð. Framtíð þjóðarinnar var sem óskrifuð bók. Listamenn þjóðarinnar skynjuðu þetta og þegar Jóhannes Kjarval, Halldór Laxness og Jón Leifs tóku að þróa list sína varð þeim ljóst að þeir yrðu að skapa sig sjálfir sem listamenn. Menningararfurinn dugði ekki, þeir yrðu að finna sínar eigin leiðir. Leiðir sem fullnægðu þeim sjálfum sem listamönnum um leið og þeir ræktuðu erindi sitt við eigin þjóð. Og það voru ekki bara listamenn þjóðarinnar sem upplifðu tíðarandann með þessum hætti. Um allt land var verk að vinna. Atvinnulíf þjóðarinnar tók stakkaskiptum, bæði til sjávar og sveita. Vegir, hafnir, brýr, flugvellir, allt þetta varð að framkvæma frá grunni.

II.

Framsóknarflokkurinn fagnaði 100 ára afmæli sínu á árinu en flokkurinn var stofnaður 16. desember 1916. Þá var Ísland ekki sjálfstætt ríki en baráttuhugur aldamótakynslóðarinnar var farinn að skila árangri og frelsiskyndlar hugsjónamanna loguðu skært, ekki síst hjá ungmennafélögum og samvinnufélögum sem að verulegu leyti kusu Framsóknarflokkinn sem málsvara sinn. Við höfðum eignast Stjórnarráð, Háskóla og okkar eigið skipafélag og stutt var í sjálfstæðið. Íslendingar voru að gerast þjóð meðal þjóða.

Þegar landsmenn líta yfir síðustu hundrað ár geta þeir sannarlega fyllst stolti. Á flestum sviðum hefur þjóðin náð að nýta sjálfstæði sitt til framfara og þróunar. Það er nokkurn veginn sama hvar gripið er niður í alþjóðlegum samanburði. Allstaðar eru Íslendingar í fremstu röð. Þetta er ekki sagt til að hreykja sér en við getum ekki vitað hvert skal stefna ef vitum ekki hvaðan við komum. Ísland og hin norrænu ríkin eru þau þjóðfélög sem flestir líta til þegar meta á gæði samfélaga og hvar best hefur tekist til við að tryggja velferð sem flestra. Við Íslendingar höfum sýnt að við eigum heima í þeim hópi og getum borið höfuðið hátt.

III.

Engum dylst að horfur í efnahagslífinu á Íslandi eru bjartar um þessar mundir og hagvöxtur samfelldari en við höfum séð í langan tíma. Hann hvílir á styrkum stoðum í hagkerfinu og við sjáum birtingarmynd þess í því að kaupmáttur launa hefur aukist verulega á síðustu misserum, laun hafa hækkað mikið um leið og verðbólga hefur haldist lág. Almenningur finnur áhrifin í auknum ráðstöfunartekjum samfara lækkandi skuldum enda hafa skuldir heimilanna lækkað mikið á undanförnum árum. Hagur heimilanna hefur sjaldan verið betri en nú, miðað við stöðu og þróun helstu hagvísa og að flestra dómi er árangurinn einstakur. Augljóst er að skuldalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar tókust mjög vel og styrktu stöðu heimilanna í landinu eins og að var stefnt.

Erlend staða þjóðarbúsins er orðin jákvæð og í fyrsta sinn frá því mælingar hófust eigum við Íslendingar meiri eignir erlendis en við skuldum. Lánshæfismat Íslands hefur hækkað og er nú A3 samkvæmt Moody’s. Það er stór áfangi og sýnir svo ekki verður um villst að Ísland er á réttri leið. Íslensk fyrirtæki geta fjármagnað sig erlendis á ný og á hagstæðari kjörum en þekkst hafa um margra ára skeið. Ávöxtunarkrafa á erlend skuldabréf íslensku bankanna hefur lækkað umtalsvert og það skilar sér í bættum fjármögnunarkjörum. Almennt nýtur ríkissjóður betri kjara erlendis en íslensk fyrirtæki. Við njótum því öll betri kjara, bæði í gegnum ríkissjóð og ekki síður þar sem íslenskt atvinnulíf hefur bæði greiðari aðgang að erlendu lánsfé og greiðir minna fyrir það. Meginþorri almennings í landinu finnur ekki lengur fyrir fjármagnshöftum og fyrirtæki hafa meira svigrúm í sinni starfsemi. Á nýju ári rýmka heimildir til gjaldeyrisviðskipta enn frekar, þótt höftin verði líklega við lýði í einhverri mynd um sinn. Nú er mikilvægara en nokkru sinni áður, að vel sé haldið á spilunum, að verkefni séu leyst án eftirmála og við teflum ekki í tvísýnu þeim mikla árangri sem hefur náðst.

En þessi góða staða gerir það ekki endilega auðveldara að halda um stjórnartaumana. Verkefni stjórnmálanna lýkur aldrei. Alltaf er hægt að gera betur, hvort sem það er á sviði velferðarmála eða uppbyggingar innviða samfélagsins. Vissulega er það svo að hinn einstaki árangur sem náðst hefur í fjármálum ríkisins gerir það að verkum að hægt er að hafa væntingar um að á næstu árum verði unnt að búa enn frekar í haginn fyrir komandi kynslóðir.

IV.

Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman:
þá varð eg villur vega.
Auðigur þóttumst
er eg annan fann:
Maður er manns gaman.

Hávamál minna okkur á þau fornu sannindi að við erum öll háð hvert öðru. Við lifum í samfélagi þar sem við verðum að taka tillit til náungans. Samfélagið grundvallast á samvinnu, allt frá sveitarstjórnarstigi upp til Alþingis og ríkisstjórnar. Undanfarið ár hefur verið okkur mörgum erfitt á hinu pólitíska sviði þar sem sundrung og tortryggni verða oft öllu yfirsterkari. Þó má segja að síðustu vikur hafi okkur stjórnmálamönnunum tekist að sýna nýtt andlit sem gefur vonandi fyrirheit um það sem koma skal. Vissulega greinir menn á um leiðir og stundum markmið en við verðum þó að trúa því að allir vilji landi og þjóð vel. Á því verður að byggja. Ný ríkisstjórn að loknum kosningum í október hefur ekki enn verið mynduð, önnur staða er uppi á Alþingi en við höfum átt að venjast. Úrslit kosninganna eru vísbending um að mynda verði ríkisstjórn með breiða skírskotun til hægri og vinstri. Ríkisstjórn sem horfir til efnahagslegrar og félagslegrar velsældar.

Framsóknarflokkurinn átti erindi við þjóðina fyrir hundrað árum og hann á enn erindi við þjóðina. Baráttan fyrir jafnrétti, þar sem hverjum manni er gert kleift að njóta sín í félagi manna, mun alltaf verða til staðar og á því sviði vitnar sagan um að Framsóknarflokkurinn stendur heill að störfum. Vissan um að samvinna manna skili okkur betur fram á veg, en hver fyrir sig, er grunnstefið í okkar starfi sem og einkunnarorðin sígildu; manngildi ofar auðgildi.

V.

Góðir landsmenn.
Framundan er nýtt ár; ár tækifæra, ár uppbyggingar, ár vaxtar og þroska. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur ráðist í mörg stór verkefni og árangurinn liggur fyrir. Það er bjart framundan, en verkefnin eru næg og á næsta ári tökumst við á við krefjandi og mikilvæg verkefni sem felast í áframhaldandi styrkingu grunneiningar þjóðfélagsins, fjölskyldunnar, og viðhald iog eflingu velferðarkerfisins. Ég þakka Íslendingum samfylgdina á árinu sem er að líða og óska þjóðinni gleðilegs árs.

Sigurður Ingi Jóhannssson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. desember 2016.