Categories
Greinar

Lóðir fyrir 300 íbúðir í Borgarbyggð

Deila grein

04/05/2022

Lóðir fyrir 300 íbúðir í Borgarbyggð

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins á undanförnum árum. Sér í lagi vegna lóðaskorts á höfuðborgarsvæðinu og einsleitni í lóðaframboði. Sveitarfélög eins og Árborg, Hveragerði og Akranes hafa byggst hratt upp og til að mynda mun íbúum í Árborg að öllum líkindum fjölga um 1800 á þessu ári. Þessari fjölgun hefur einnig fylgt uppbygging þjónustu og innviða í viðkomandi sveitarfélögum sem bæði eru af hálfu hins opinbera og ekki síður hefur hinn aukni íbúafjöldi gert það að verkum að fyrirtæki og þjónusta sem ekki voru til staðar hafa nú öðlast rekstrargrundvöll og dafna og búa til aukinn fjölbreytileika atvinnulífs og betri þjónustu.

Byggjum í Brákarey og Bjargslandi

Við í Framsókn viljum hraða skipulagsvinnu til þess að geta boðið upp á fleiri lóðir í Borgarnesi strax í upphafi næsta árs. Það þarf að flýta vinnu við þróunarverkefni í Brákarey þar sem innviðir eru að stórum hluta til staðar fyrir uppbyggingu og því hægt að byrja fyrr en ef um uppbyggingu á alveg nýju hverfi væri að ræða. Slík þróunarverkefni hafa gefið góða raun í öðrum sveitarfélögum og má þar helst líta á verkefni eins og uppbyggingu nýs miðbæjar á Selfossi, sem var þróunarverkefni þar sem tvinnað var saman atvinnu og verslunarstarfsemi með íbúðabyggð. Einnig viljum við flýta skipulagsferli og gatnagerð á nýrri götu sem er utan um Kveldúlfshöfðann frá enda Fjólukletts þannig að hægt verði að koma því í auglýsingu sem fyrst. Þetta eru forgangsverkefni þar sem nánast ekkert er til af óúthlutuðum lóðum í Borgarnesi í dag. Við viljum uppbyggingu og þá verðum við að flýta þessum verkefnum eins og kostur er.

Byggjum í dreifbýli

Mikilvægt er tryggja lóðaframboð og að gatnagerð sé klár til að hægt sé að úthluta fleiri lóðum á Hvanneyri og Varmalandi þar sem Borgarbyggð á byggingarland. Aðlaga skipulag að þörfum húsbyggjenda og skipuleggja fleiri lóðir til að tryggja nægilegt framboð á hverjum tíma. Við eigum að leitast við að koma í veg fyrir það rof sem hefur orðið í framboðshlið lóðamála í Borgarbyggð. Nægt land er til staðar. Það þarf bara að skipuleggja það og hefja gatnagerð.

Byggjum handan Borgarvogarins

Nú er að fara af stað arkitektasamkeppni um nýja byggð á landi handan Borgarvogarins og er það gríðarlega spennandi framtíðarsýn og við erum ekki í nokkrum vafa um að það verkefni muni slá í gegn þegar fram líða stundir, en það er langhlaup. Það þýðir ekki að það megi halla sér aftur, það þarf að keyra þetta verkefni stöðugt áfram til þess að þetta verði að veruleika fyrr en seinna.

Byggjum upp í Borgarbyggð

Til þess að við sjáum atvinnutækifærum fjölga, til þess að fólkið sem fer og menntar sig geti komið heim, til þess að afi og amma geti minnkað við sig húsnæði á efri árum, þá þarf að byggja. Skipuleggja land, fara í gatnagerð og stuðla að byggingu íbúðarhúsnæðis í allri Borgarbyggð. Viðvarandi húsnæðisskortur hefur verið vandamál undanfarin ár og hefur verið erfitt fyrir þá sem eru á leigumarkaði að fá húsnæði og sama á við um atvinnurekendur sem eru í húsnæðisleit fyrir starfsfólk sitt. Fáar eignir eru á sölu og hefur íbúum ekki fjölgað í takt við það sem gerist hjá nágrannasveitarfélögum eins og til dæmis Akranesi. Við þurfum að rjúfa kyrrstöðuna og keyra uppbygginguna í gang. Við þurfum nýja Framsókn í húsnæðismálum!

Davíð Sigurðsson, skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Borgarbyggð.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 4. maí 2022.