Categories
Greinar

Lögreglan efld

Deila grein

28/11/2018

Lögreglan efld

Á síðasta ári var bætt við stöðugildum hjá flestum lögregluembættum um landið til að styrkja skilvirkni lögreglunnar í kynferðisbrotamálum. Þar með var hafin vinna við að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota innan réttavörslukerfisins. Sú aðgerðaáætlun felur m.a. í sér að renna styrkari stoðum undir samstarf milli lögreglu og ákæruvalds til að bæta stöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum og styrkja réttarstöðu þeirra.

Lögreglan er oftast fyrsti staðurinn sem brotaþolinn leitar til. Það er mikilvægt fyrir brotaþola að móttaka og þekking þeirra sem þeir mæta sé sem faglegust og það sé hægt að treysta á að málin fari í öfluga og skjóta rannsókn. Sérþekking á þessum málum er nauðsynleg hjá þeim sem fyrstir taka á móti brotaþolum því fyrstu viðbrögð skipta miklu máli um hvernig brotaþolinn kemur út úr málinu.

Efling rannsóknar

Þegar kemur að málefnum brotaþola skiptir áreiðanleg og fljótvirk rannsókn þessara mála innan lögreglunnar höfuðmáli. Það er líka mikilvægt fyrir samfélagið að tryggja nægilegt svigrúm svo hægt sé að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum eins og eftirliti með nettælingum og barnaníðsefni. Forvarnir þarf að efla með því að byggja upp enn frekari faglega þekkingu þeirra aðila sem vinna með þessi mál. Það byggir upp traust og hvetur brotaþola frekar til að leita réttar síns í erfiðum málum.

Aukin þjónusta

Í fjárlögum fyrir árið 2019 er gert ráð fyrir framlagi sem nemur einu stöðugildi til að styrkja málsmeðferð lögreglunnar á Norðurlandi vestra í rannsóknum. Þar með er búið að bæta við stöðugildi hjá öllum lögregluembættum á landinu vegna þessa. Lögreglan um allt land hefur ekki verið ofalin síðustu ár þrátt fyrir fjölda verkefna sem hafa bæst við. Mikil aukning á fjölda ferðamanna hefur stóraukið umferð á vegum landsins. Aukið umferðareftirlit lögreglunnar á Norðurlandi vestra hefur leitt af sér 28% fækkun umferðarslysa í umdæminu sem af er ári sem er afar jákvæð þróun. Lögreglunni á Norðurlandi vestra var falið það verkefni að hafa umsjón með fíknaefnahundum hjá lögregluembættum landsins og verður áhugavert að fylgjast með hvernig það verkefni mun þróast á komandi árum.

Þessi styrking á embættinu ætti að bæta þjónustu lögreglunnar í umdæminu verulega. Nú getur lögreglan einbeitt sér betur að þjónustu við borgarana og sinnt umferðagæslu betur þar sem búið er að bæta við stöðugildi fyrir sérþjónustu og rannsóknir.

Umferð um svæðið hefur aukist mikið allt árið og því mikilvægt að lögreglan sinni því með auknum þunga svo íbúar og aðrir vegfarendur finni sig öruggari auk þess sem hægt er að sinna forvörnum og almennri gæslu. Ég fagna þessari eflingu á lögregluembættinu á Norðurlandi vestra.  Lögreglan ætti að hafa betri tíma til að vera sýnilegri og sinna frekari forvörnum og gæslu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á feykir.is 27. nóvember 2018.