„Ég hef lengi haft mikinn áhuga á barnavernd og réttindum barna og velt vöngum yfir því hvað megi fara betur í kerfinu á þessu sviði. Umræðan um brot gegn börnum og barnaníðinga hefur verið hávær undanfarna mánuði og ár og ég hef hlustað af athygli á hana – hlustað á fórnarlömb þessara manna og hvernig kerfið hefur oft á tíðum brugðist þeim. Frumvarpið er tilraun til að bæta lagaumgjörð um þessi málefni,“ segir Silja Dögg alþingimaður um ástæður þess að hún lagði fram frumvarp um að auka skyldi eftirlit með dæmdum, hættulegum barnaníðingum.
Finna hættulegustu einstaklingana
Að sögn Silju fjallar málið um að auka heimildir Barnaverndarstofu til eftirlits og að dæmdir barnaníðingar skuli undirgangast áhættumat á meðan á afplánun dóms stendur þannig að hægt sé að finna út hvaða einstaklingar eru mjög líklegar til að endurtaka kynferðisbrot gegn börnum. „Lítill hluti þeirra sem dæmdur er fyrir barnaníð flokkast í hættulegasta hópinn. Líklega er um að ræða örfáa einstaklinga á ári. En það er mjög mikilvægt að ná utan um hópinn og veita þessum einstaklingum aukið eftirlit. Barnavernd á hverjum stað og lögregla þarf að vita hvar þessi aðilar búa og einnig er nauðsynlegt að upplýsingum sé komið á framfæri við barnaverndaryfirvöld þegar þeir skipta um nafn, sem algengt er að þeir geri til að reyna að dyljast í samfélaginu,“ segir Silja Dögg.
Aukið eftirlit og öryggisráðstafanir
Ef frumvarpið nær fram að ganga mun Barnaverndarstofa meðal annars geta tilkynnt viðkomandi barnavernd ef dæmdur kynferðisbrotamaður, sem gerst hefur brotlegur gagnvart börnum, og veruleg hætta er talin stafa af, flytur í umdæmið. Ef rík barnaverndarsjónarmið mæla með getur barnavernd einnig gert öðrum viðvart að fengnu samþykki Barnaverndarstofu.
Þá verður einnig hægt að gera kröfu um að viðhafðar séu ákveðnar öryggisráðstafanir eftir að einstaklingur sem brýtur kynferðislega gagnvart barni afplánar dóm sinn, ef verulegar líkur eru talar á því, samkvæmt mati heilbrigðisstarfsmanns, að viðkomandi brjóti aftur gagnvart barni.
Eftirfarandi öryggisráðstafanir verður hægt að kveða á um í dómi:
- skyldu til að sinna nauðsynlegri meðferð á vegum heilbrigðisstarfsmanna,
- skyldu til að mæta í skipulögð viðtöl hjá félagsþjónustu,
- eftirlit með internetnotkun og notkun samskiptamiðla og -forrita,
- að einstaklingur haldi sig frá neyslu áfengis og vímuefna,
- eftirlit með heimili og
- bann við búsetu á heimili þar sem börn eru búsett eða dvelja reglulega.
Ef í ljós kemur að einstaklingur sinnir ekki fyrirmælum um öryggisráðstafanir getur það varðað allt að 2 ára fangelsi.
Upplýsingar um dvalarstað
Aðrar breytingar, sem kveðið er á um í frumvarpinu, eru þær að þegar dómar falla vegna kynferðisbrota gagnvart börnum skal Ríkissaksóknari láta Barnaverndarstofu dómana í té. Þá skal Fangelsismálastofnun veita upplýsingar um upphaf og lok afplánunar, sem og skilyrði sem sett eru fyrir reynslulausn, fyrirhugaðan dvalarstað viðkomandi einstaklings, auk gagna frá heilbrigðisstarfsmönnum um einstaklinginn. Viðkomandi einstaklingi er jafnframt skylt að tilkynna breyttan dvalarstað til Barnaverndarstofu allan þann tíma sem áframhaldandi öryggisráðstafanir eiga að vara.
Bresk fyrirmynd
„Það er augljóst að víða eru misbrestir í því kerfi sem á að vernda börnin okkar. Dæmin sýna okkur það. Verkferlar innan stofnana eru ekki alltaf nógu vandaðir og samskipti á milli stofnana, og jafnvel á milli starfsmanna innan sömu stofnana, virðast einhvern veginn eiga það til að fara fyrir ofan garð og neðan á kostnað barnanna. Það vantar aukna samhæfingu á milli stofnana og bætt upplýsingaflæði, ég held að það sé alveg ljóst,“ segir Silja Dögg og bætir við að fyrirmyndin sé tekin frá Bretlandi en þar hefur svipað kerfi verið notað í rúma tvo áratugi með góðum árangri.
Verndum börnin
„Gráa svæðið er auðvitað persónuverndarsjónarmið og mannréttindi þess einstaklings sem hefur gerst brotlegur en hefur svo afplánað sinn dóm. En ég lít svo á að mannréttindi séu ekki án takmarkana. Ef áhættumatið sýnir fram á að það sé nánast öruggt að viðkomandi einstaklingur haldi áfram að níðast börnum, þá verði samfélagið að bregðast við því. Í slíkum tilfellum þá þurfa aðrar reglur að gilda. Markmiðið er að vernda okkar viðkvæmustu einstaklinga, börnin og það er skylda okkar sem samfélags að leita allra leiða til þess,“ segir Silja Dögg að lokum.
Greinin birtist fyrst í Suðurnesjablaðinu.