Með uppstokkun á stjórnarráði Íslands og tilkomu nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis urðu tímabærar breytingar að veruleika. Í fyrsta sinn heyra þannig menning, ferðaþjónusta og viðskipti undir einn og sama fagráðherrann. Málaflokkarnir eru umsvifamiklir en tugþúsundir starfa við menningu, skapandi greinar og ferðaþjónustu sem fléttast saman með ýmsu móti, auka aðdráttarafl Íslands og skapa gríðarleg verðmæti fyrir þjóðarbúið. Þannig nemur heildarumfang málaflokka ráðuneytisins rúmum 40% af landsframleiðslu.
Það er því nauðsynlegt að hlúa að þeim með markvissum hætti um allt land í samstarfi við heimamenn á hverju svæði fyrir sig. Í liðinni viku heimsótti ég Austurland þar sem ég fundaði með fulltrúum sveitarfélaga og landshlutasamtakanna ásamt forystufólki í menningarlífi og ferðaþjónustu og atvinnulífi á svæðinu.
Heimsóknin var frábær í alla staði og ómetanleg fyrir mig sem ráðherra til að fá beint í æð hvernig landslagið horfir við fólki sem starfar í þessum greinum hvað lengst frá Reykjavík og hvaða tækifæri eru til þess að styrkja umgjörð þeirra. Ferðaþjónustan er stærsta sjálfsprottna byggðaaðgerð Íslandssögunnar en með henni hefur skapast fjöldi starfa umhverfis landið. Greinin hefur átt stóran þátt í að auka lífsgæði okkar með ríkulegra mannlífi, nýstárlegu framboði af afþreyingu og góðum mat. Til þess að tryggja vöxt hennar á landsbyggðunum utan háannar þurfa stjórnvöld að halda áfram að styrkja umgjörð hennar og stuðla að betri dreifingu ferðamanna.
Ákveðinn árangur náðist af aðgerðum stjórnvalda í þá veru fyrr á þessu ári þegar þýska flugfélagið Condor tilkynnti beint áætlunarflug til Egilsstaða og Akureyrar á næsta ári. Það er eitt jákvætt skref af nokkrum sem þarf að taka. Tryggja þarf greiðar vegasamgöngur að helstu náttúruperlum landsbyggðarinnar yfir vetrartímann með nægjanlegri vetrarþjónustu. Stjórnvöld í samstarfi við Samtök fyrirtækja í ferðaþjónustu þurfa að leiða samtal við fjármálafyrirtækin um aðgengi að lánsfjármagni í ferðaþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Skortur á slíku aðgengi virðist landlægur vandi, meðal annars hjá rótgrónum ferðaþjónustuaðilum, sem vert er að skoða betur. Halda þarf áfram að byggja upp innviði og gera Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll betur í stakk búna til að taka á móti alþjóðlegu flugi ásamt því að huga ávallt að því að landið allt sé undir í alþjóðlegu markaðsstarfi á Íslandi sem áfangastað. Öflug menning á landsbyggðunum styður við ferðaþjónustuna og öfugt og þar eru fjölmörg tækifæri sem hægt er að virkja, meðal annars með auknum stuðningi í kynningu á söfnum og menningarstofnunum. Hef ég þegar óskað eftir að þeirri vinnu verði ýtt úr vör.
Ég er bjartsýn fyrir hönd þessara greina og ég hlakka til að vinna með öllum landshlutum að vexti þeirra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á mbl.is 27. september 2022.