Categories
Greinar

Metnaðarfull aðgerðaráætlun í jarðarmálum

Deila grein

25/09/2019

Metnaðarfull aðgerðaráætlun í jarðarmálum

Eitt af forgangsmálum þingflokks Framsóknar á þessi þingi er þingsályktun um aðgerðaráætlun í jarðarmálum. Tillagan er í sjö liðum en henni er ætlað að styrkja lagaumgjörð og reglur í tengslum við ráðstöfun og nýtingu auðlinda hér á landi. Markmiðið er að skapa fleiri tækifæri til heilsársbúsetu í dreifbýli, fjölbreyttrar sjálfbærrar landnýtingar og matvælaframleiðslu í landinu. Tillagan rímar því vel við markmið ríkisstjórnarinnar um að finna leiðir til að setja skilyrði um kaup á landi út frá byggðarsjónarmiðum og umgengni um auðlindir.

Miklir almannahagsmunir í húfi

Það er ekki ofsögum sagt að land er takmörkuð auðlind. Það á við um landið sjálft, jarðveginn og gróðurinn. Landi geta fylgt verðmætar auðlindir á borð við veiði- og vatnsréttindi. Þess vegna geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og hverri annarri fasteign. Með því að samhæfa lög, reglur og verklag geta stjórnvöld markað skýra stefnu í ráðstöfun lands nú og til framtíðar. Flutningsmenn tillögunnar leggja m.a. til að gerð verði krafa um að kaupandi lands búi á Íslandi, hafi búið þar í a.m.k. fimm ár eða hafi starfsemi í landinu. Áhersla er lögð á að tilgangur jarðakaupanna þurfi að vera skýr, t.d. vegna landbúnaðar, menningarverðmæta og náttúruverndar. Einnig þarf að tryggja með lögum að tekjur af jörðum og hlunnindum skili sér til nærsamfélagsins.

Erlendar fyrirmyndir

Í núverandi lagaumhverfi geta rúmlega 500 milljón manns keypt land og aðrar fasteignir hérlendis með sömu skilyrðum og íslenskir ríkisborgarar. Meiri skorður eru settar á ráðstöfun fasteigna og aðilaskipti í Danmörku og Noregi en hér á landi. Í Danmörku gildir t.d. sú meginregla að einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir í landinu eða hafa áður búið þar í a.m.k. fimm ár þurfa að fá leyfi frá dómsmálaráðuneytinu til að geta eignast fasteignaréttindi í landinu. Ein af tillögum flutningsmanna er að jarðakaup verði leyfisskyld. Þannig yrði hægt að tryggja nauðsynlega aðkomu ríkis og sveitarfélaga að eigendaskiptum jarða til að fylgja eftir lögum, reglum og ákvæðum aðal-, svæðis- og deiliskipulaga. Það hefur ríkt ákveðið kæruleysi í þessum málum síðastliðin ár. Með aðgerðaráætluninni er ætlunin að ráða bót á því.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. september 2019.