Categories
Greinar

Mikilvæg endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni kynnt

Deila grein

29/06/2016

Mikilvæg endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni kynnt

Eygló HarðardóttirVerulegar breytingar á almannatryggingakerfinu eru áformaðar eins og sjá má í drögum að frumvarpi sem birt hafa verið til umsagnar á vef velferðarráðuneytisins.

Allt frá árinu 2005 hefur verið unnið að heildarendurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar og ófáar nefndir og verkefnahópar komið að þeirri vinnu. Haustið 2013 skipaði ég nefnd undir forystu þingmannanna Péturs Blöndal heitins og Þorsteins Sæmundssonar og eru frumvarpsdrögin byggð á vinnu þeirrar nefndar.
Helstu markmið fyrirhugaðra breytinga eru að einfalda og skýra almannatryggingakerfið, bæta samspil þess við lífeyrissjóðina og auka stuðning við þann hóp aldraðra sem hefur lágar eða engar tekjur sér til framfærslu aðrar en bætur almannatrygginga. Horft er til þess að styðja aldraða til sjálfsbjargar og hvetja til atvinnuþátttöku.

Aukinn sveigjanleiki við starfslok
Markmiðið er einnig að bregðast við þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna hækkandi hlutfalls eldri borgara af mannfjölda og lengingar meðalævinnar. Lagt er til að auka sveigjanleika við starfslok og upphaf lífeyristöku og skapa þannig hvata fyrir aldraða til áframhaldandi atvinnuþátttöku eftir vilja og getu hvers og eins. Auk þessa verði lífeyristökualdur hækkaður í skrefum um þrjú ár á næstu 24 árum.

Aukinn sveigjanleiki felur í sér tillögu um heimild fólks til að fresta lífeyristöku allt til áttræðs og möguleika á að flýta lífeyristöku hjá almannatryggingum til 65 ára aldurs. Miðað er við að lífeyrisþegar fái hærri lífeyri ef lífeyristöku er frestað, en lægri lífeyri ef lífeyristöku er flýtt. Til lengri tíma er stefnt að því að lífeyrisþegum verði gert kleift að taka hálfan ellilífeyri frá lífeyrissjóði en fresta töku hins helmingsins sem hækkar þá í samræmi við reglur sjóðsins. Samhliða geti fólk tekið hálfan ellilífeyri frá almannatryggingum.

Einfaldara kerfi og færri bótaflokkar
Lagt er til að bótaflokkarnir grunnlífeyrir, tekjutrygging og sérstök uppbót til framfærslu verði sameinaðir í einn bótaflokk; þ.e. ellilífeyri. Frítekjumörk verða afnumin og mun fjárhæð ellilífeyris almannatrygginga lækka um sama hlutfall, eða 45%, vegna tekna frá öðrum en almannatryggingum, en í dag er þetta hlutfall mismunandi eftir tegund tekna. Áfram er gert ráð fyrir að ákveðnar tegundir tekna, s.s. greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, verði undanskildar við útreikning á tekjuviðmiðinu.

Jákvæð efnahagsleg áhrif
Áætlað er að kostnaður þessara breytinga á almannatryggingakerfinu nemi 5,3 milljörðum króna fyrsta árið. Greiningarfyrirtækið Analytica lagði mat á efnahagsleg áhrif breytinganna. Niðurstaðan er sú að breytingarnar hafi á heildina litið jákvæð efnahagsleg áhrif. Gera megi ráð fyrir að hækkun á lífeyristökualdri leiði til fjölgunar fólks á vinnumarkaði og auki þannig með beinum hætti framleiðslu og auknar skatttekjur. Þá megi reikna með að sveigjanleg starfslok stuðli að hagkvæmara fyrirkomulagi framleiðslu sem geti aukið hana enn frekar.

Sú kynslóð kvenna sem nú er á lífeyrisaldri hefur frekar en karlar gert hlé á atvinnuþátttöku sinni á vinnualdri, t.d. vegna fjölskylduábyrgðar, á almennt minni réttindi í lífeyrissjóðum, hefur búið við kynbundinn launamun þorra starfsævinnar og treystir því frekar á almannatryggingakerfið sér til framfærslu. Lagðar eru til breytingar í því skyni að auka réttindi allra þeirra sem hafa áunnið sér lítinn eða jafnvel engan rétt í lífeyrissjóðakerfinu vegna lítillar atvinnuþátttöku, jafnt karla sem kvenna, en konur munu hagnast meira á því en karlar vegna lægri tekna. Gangi þessar breytingar eftir er áætlað að tæplega 68% aukinna útgjalda muni fara til kvenna en um 32% til karla.

Samstarfsverkefni um starfsendurhæfingu og innleiðingu starfsgetumats
Í niðurstöðu nefndarinnar um endurskoðun almannatrygginga var samstaða um breytingar á bótakerfi aldraðra en ágreiningur um breytingar sem snúa að öryrkjum. Því er lagt til að komið verði á fót tilraunaverkefni um starfsendurhæfingu og innleiðingu starfsgetumats í samstarfi ríkis, sveitarfélaga, samtaka aðila vinnumarkaðarins og helstu hagsmunasamtaka fólks með skerta starfsgetu í þeim tilgangi að efla atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu.

Afnám vasapeningakerfis á öldrunarheimilum
Í frumvarpsdrögunum er lögð til sérstök heimild til að hefja tilraunaverkefni um breytt fyrirkomulag greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum um afnám gildandi vasapeningakerfis. Þetta hefur lengi verið baráttumál samtaka aldraðra, en með því myndu íbúar á þessum heimilum halda lífeyrisgreiðslum sínum og greiða milliliðalaust fyrir veru sína á heimilunum að undanskildum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Ég hvet fólk til að kynna sér efni frumvarpsins sem er aðgengilegt á vefnum www.vel.is og koma athugasemdum á framfæri, en umsagnarfrestur er til 31. júlí næstkomandi.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. júní 2016.