Categories
Greinar

Mót­vægis­að­gerðir í fisk­eldi

Deila grein

20/10/2019

Mót­vægis­að­gerðir í fisk­eldi

Ísíðustu viku birtist frétt í Fréttablaðinu þar sem vitnað var í skýrslu vísindamanna í Noregi um að núverandi mótvægisaðgerðir þar í landi séu ekki nægjanlegar til að draga úr slysasleppingum á eldislaxi og fullyrt að laxeldi í sjó sé mesta ógnin sem steðjar að villtum laxi í Noregi.

Villti laxastofninn í Atlandshafi hefur almennt verið á niðurleið undanfarin ár og svo er líka í Noregi. Athygli vekur að stofninn hefur verið í niðursveiflu bæði í löndum þar sem eldi er stundað og líka þar sem það er ekki stundað. Niðurstöður benda til að hrygningarstofninn sé nægilega stór en endurheimt upp í árnar aftur frá sjónum sé að versna.

Manngerð ógn

Í skýrslunni er talað um að bæði áhrif frá manninum og minni endurkoma laxins frá sjónum upp í árnar aftur séu ástæða fækkunarinnar. Þar er líka talað um að af þeim umsvifum mannsins sem hafa áhrif á laxinn séu slysasleppningar, laxalús og sjúkdómar enn þá stærstu hætturnar sem steðji að norska laxinum.

Það eru fleiri ógnir sem steðja að villta laxinum, eins og virkjanir, súrt regn og mannvirkjagerðir svo ekki sé talað um mengun í sjónum sem ógnar líka öðrum fisktegundum alstaðar í heiminum.

Mikilvægi mótvægisaðgerða

Hins vegnar hefur eldisfiski fækkað í norskum veiðiám þökk sé þeim mótvægisaðgerðum sem virkjaðar hafa verið þar. Þar má sjá mikinn mun og hafa vísindalegar rannsóknir stutt það og kemur það fram í fyrrnefndri skýrslu.

Verum á verði

Slysasleppingar í sjókvíeldi hafa komið upp og má búast við að svo verði áfram. Oftast er þar um mannleg mistök um að kenna. Sjávarútvegsráðherra Noregs hefur kallað eftir aðgerðum vegna þeirra. Laxeldisfyrirtækin þar hafa sent frá sér tillögur að aðgerðum til að draga enn frekar úr slysasleppingum og áhrifum þeirra. Íslensk stjórnvöld ættu að fylgjast vel með hvort eitthvað af þeim aðgerðum gætu hentað hér á landi. Með nýsamþykktum endurbótum á fiskeldislögum í vor er Ísland án vafa með einar ströngustu kröfur í heimi þegar kemur að fiskeldi og þannig viljum við hafa það áfram.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst fyrst í Fréttablaðinu 19. október 2019.