Categories
Greinar

SAMGÖNGUÁÆTLUN Í SAMRÁÐSGÁTT

Deila grein

19/10/2019

SAMGÖNGUÁÆTLUN Í SAMRÁÐSGÁTT

Nú er endurskoðuð samgönguáætlun komin í samráðsgátt stjórnvalda og verður hún lögð fram á Alþingi um miðjan nóvember. Þetta er í fyrsta sinn sem samgönguáætlun er í samræmi við samþykkta fjármálaáætlun.  Það ber vott um ný vinnubrögð undirstrikar raunverulegan vilja stjórnvalda til að efla samgöngur  um allt land. Ávinningur af samgönguáætluninni er aukið öryggi, stytting vegalengda og efling atvinnusvæða. Í áætluninni má sjá breytta forgagnsröðun. Á tímabilinu fara rúmlega 214 ma. kr. í flýtiaðgerðir miðað við fyrri áætlanir, þar af 125 ma. kr.  utan höfuðborgarsvæðisins. Sérstök jarðgangaáætlun verður aftur tekin upp, fyrsta flugstefna landsins mun lýta dagsins ljós og  einnig stefna um almenningssamgöngur milli byggða.

Vegasamgöngur færast frá söguöld

Nú loksins ætla stjórnvöld af fullri alvöru að færa  hringveg um Vestfirði til nútímans. Dýrafjarðargöng eru langt kominn og verða tilbúin á nýju ári. Margir hafa velt fyrir sér framhaldinu en í nýrri áætlun eru fjármunir settir í Dynjandisheiði strax á næsta ári og skal hún kláruð árið 2024. Alls eru áætlaðir 5.8 ma. kr.  í þá framkvæmd. Ætlunin er að klára Bíldudalsveg  innan 10 ára og mun sú framkvæmd kosta 4,8 ma. kr. Veiðileysuháls er á áætlun og áfram verður unnið í Djúpvegi með því að afleggja einbreiðu brúnna við Hattardal. Þá er að sjálfsögðu vegur um Gufudalssveit fjármagnaður og skal þeim framkvæmdum lokið á árinu 2023.

Það má því segja að Vestfirðingar sjái nú loksins frammá að fjórðungurinn sé að færast í nútímalegt horf hvað vegasamgöngur varðar.

Hafnarframkvæmdir

Dýpkun og lenging á Sundabakka á Ísafirði eru á áætlun á árinu 2021-2023, framkvæmdir á Suðureyri við stálþil eru fjármagnaðar og áætlað er að ráðast í endurbyggingu innri hafnarkants á Þingeyri innan þriggja ára. Í Bolungarvík er gert ráð fyrir framkvæmdafé upp á rúmar 160 ma. kr. á næstu fimm árum.

Neyðarástand á Bíldudalshöfn

Vesturbyggð ásamt fyrirtækjum sem nýta hafnaraðstöðu á Bíldudalshöfn hafa kallað eftir því að framkvæmdum við höfnina verði flýtt eins og hægt er. Athafnasvæði og viðlegupláss er lítið og stór aukin atvinnustarfsemi sem hefur byggst upp á síðast liðnum árum kallar á aðgerðir við höfnina.  Bent hefur verið á að neyðarástand skapist þegar mest er um að vera og því brýnt að þeim framkvæmdum verði flýtt.  Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir fjármagni í uppbyggingu hafnarinnar en ljóst er að það verður að flýta framkvæmdaáætlun og setja þær í útboð sem allra fyrst.

Framkvæmdir í forgang

Undir forystu núverandi samgönguráðherra Sigurðar Inga er hér verið að leggja fram fjármagnaða raunhæfa samgönguáætlun sem rímar við fjármálaáætlun þingsins. Þarna má sjá áratugalanga baráttu Vestfirðinga raungerast. Með betri samgöngum er hægt að ráðast að fullu í uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu sem væntanlega mun skila sér í bættu samkeppnishæfu samfélagi fyrir fjórðunginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 18. október 2019.