Categories
Fréttir

Enn enginn samningur við Sjúkratryggingar Íslands varðandi rekstur hjúkrunarheimila

Deila grein

17/10/2019

Enn enginn samningur við Sjúkratryggingar Íslands varðandi rekstur hjúkrunarheimila

Ásgerður K. Gylfadóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, minnti á í störfum þingsins í gær, að enn eru Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga án samnings við Sjúkratryggingar Íslands varðandi rekstur hjúkrunarheimila.
„Í gildi var rammasamningur milli aðila sem rann út um síðustu áramót. Frá þeim tíma hefur verið greitt samkvæmt einhliða gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands sem fól í sér umfangsmiklar og róttækar breytingar til lækkunar á framlögum til hjúkrunarheimila. Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 kemur fram að Sjúkratryggingar Íslands annist kaup á heilbrigðisþjónustu sem byggist á þarfagreiningu og miðist við þarfir íbúanna í landinu, þar með talið íbúa hjúkrunarheimila. Viðræður milli aðila sem um ræðir hafa verið í gangi þótt stopular hafi verið á árinu og á meðan eru hjúkrunarheimilin rekin í mínus mánuð eftir mánuð,“ sagði Ásgerður.
„Samkvæmt mínum heimildum er kominn fram grunnur að samkomulagi en það þarf að ljúka gerð samnings og gera árið 2019 upp með þeim hætti að rekstur þessarar mikilvægu þjónustu nái jafnvægi. Þjónusta við aldraða er grunnþjónusta sem þarf að hlúa betur að. Það þarf að tengja aftur RUG-stuðul við nýtt dvalargjald þannig að hjúkrunarþyngd sé metin inn í gjaldstofninn.“
„Að lokum vil ég hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til að skipa þverpólitíska nefnd sem fari yfir rekstur og framtíðarfyrirkomulag á byggingum og rekstri hjúkrunarheimila eins og hv. fjárlaganefnd lagði til í meirihlutaáliti sínu um fjármálaáætlun í vor. Stefnan getur ekki verið sú með fjölgun aldraðra og einstaklinga sem þurfa á þjónustu hjúkrunarheimila og annarri öldrunarþjónustu að halda að ár eftir ár sé dregið úr fjármagni til þjónustunnar per rými,“ sagði Ásgerður.