Categories
Greinar

Náttúruminjasafn á tímamótum

Deila grein

03/12/2018

Náttúruminjasafn á tímamótum

Sýning Náttúruminjasafns Íslands helguð einni mikilvægustu auðlind okkar, vatninu, verður opnuð í Perlunni á morgun, sjálfan fullveldisdaginn. Sýningin ber yfirskriftina Vatnið í náttúru Íslands og mun veita gestum nýstárlega sýn í leyndardóma vatnsins og mikilvægi þess fyrir farsæla framtíð og búsetu í landinu. Markmið sýningarinnar er meðal annars að benda okkur á að umgangast vatnið í öllum sínum myndum af aðdáun og virðingu og fræða gesti um undur náttúrunnar.

Opnun sýningarinnar er merkur áfangi í sögu Náttúruminjasafnsins. Hún er fyrsta stóra sýningin sem höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum setur upp á eigin vegum síðan safnið var formlega sett á laggirnar árið 2007. Einnig má segja að þessi sýning sé fyrsta skrefið í áttina að því að hér á landi verði til fullbúið safn í náttúrufræðum þar sem fyrir hendi verða sérfræðingar á sviði náttúru- og safnafræða og aðstaða til móttöku náttúruminja, skráningar þeirra og varðveislu. Safnið fær nú til afnota 340 fm hæð í Perlunni í Öskjuhlíð þar sem fyrirtækið Perla norðursins setur upp fjölbreyttar sýningar tengdar íslenskri náttúru og hugviti, listfengi og nýjustu tækni er einnig beitt til þess að gera upplifun gesta sem áhrifaríkasta.

Náttúruminjasafn Íslands er mennta- og fræðslustofnun og ein af grunnstoðum samfélagsins á því sviði. Miðlun með sýningahaldi er mikilvægur þáttur í starfsemi allra safna og nú þegar meiri samkeppni er um tíma fólks og athygli þarf að huga vel að framsetningu og miðlunarleiðum. Nýja sýningin er bæði frumleg og falleg og gerir ráð fyrir virkri þátttöku gesta. Fagnaðarefni er að börnum er gert sérstaklega hátt undir höfði í miðlun sýningarinnar og er sýningin að verulegu leyti sniðin að því að vekja áhuga ungra gesta. Tveir safnkennarar munu sinna sérstaklega móttöku skólahópa á sýninguna og sjá um kennslu, einkum fyrir leik- og grunnskóla.

Íslensk náttúra hefur mikla sérstöðu á alþjóðavísu og er eitt helsta aðdráttarafl fyrir erlendra gesti sem hingað sækja. Í þessari nýju sýningu Náttúruminjasafnsins er þekkingu vísindamanna á íslenskri náttúru miðlað á eftirtektarverðan hátt og fá gestir tækifæri til að upplifa vatnið í nýju og fræðandi ljósi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. nóvember 2018.