Categories
Greinar

Norður­landa­ráð styður lýð­ræðis­öfl í Pól­landi

Deila grein

06/03/2020

Norður­landa­ráð styður lýð­ræðis­öfl í Pól­landi

Hátt í fjórir af hverjum tíu innflytjendum á Íslandi eru frá Póllandi. Þetta eru nálægt því tuttugu þúsund manns, fleiri en allir íbúar Reykjanesbæjar eða Akureyrar. Þó ekki væri nema af þessari ástæðu ættu málefni Póllands að vera ofarlega í hugum Íslendinga. Pólverjar eru jafnframt fjölmennasti hópur innflytjenda í Noregi og Danmörku og í Svíþjóð búa næstum 100 þúsund Pólverjar. Stjórnmálamenn í þessum löndum eru enda mjög uppteknir af þróun mála í þessu stóra og fjölmenna nágrannalandi sínu.

Vilji fyrir auknum samskiptum

Árið 2020 fer Ísland með formennsku í Norðurlandaráði, samstarfi þjóðþinga Norðurlanda. Greinarhöfundur gegnir embætti forseta Norðurlandaráðs en Oddný G. Harðardóttir er varaforseti. Í fyrra var sænski þingmaðurinn Hans Wallmark í forsetaembættinu. Í nóvember áttum við Wallmark fund með Tomasz Grodzki, forseta öldungadeildar pólska þingsins, í tengslum við Eystrasaltsþingið sem haldið var í Ríga í Lettlandi. Grodzki átti frumkvæði að fundinum, en lítil sem engin samskipti hafa verið milli Norðurlandaráðs og pólska þingsins frá árinu 2015. Í þingkosningunum sem fram fóru í október það ár beið flokkur Grodzkis, Borgaraflokkurinn, ósigur og þjóðernis- og íhaldsflokkurinn Lög og réttur náði meirihluta á þinginu og tók við stjórnartaumunum í Póllandi.

Lýðræðisþróun í Póllandi áhyggjuefni

Framferði nýju valdhafanna í Póllandi hefur valdið okkur í Norðurlandaráði og mörgum öðrum áhyggjum á síðustu árum. Umdeildar breytingar á dómskerfinu, afskipti valdhafa af störfum fjölmiðla og afstaðan til hinsegin fólks er á skjön við skoðanir og hugsjónir mínar og flestra norrænna stjórnmálamanna.

Gömul tengsl endurvakin

Í þingkosningum sem fram fóru í október í fyrra hélt ríkisstjórnin meirihluta sínum í neðri deild pólska þingsins, en missti tökin á öldungadeildinni. Borgaraflokkurinn, sem er stærsti flokkur stjórnarandstöðunnar, hefur með Grodzki í fararbroddi verið fljótur að endurvekja gömul tengsl þingsins sem slitnuðu eftir kosningarnar 2015. Meðal annars var Norðurlandaráði boðið til Póllands til að taka aftur upp þráðinn í samstarfinu. Þess vegna fer ég fyrir þriggja manna sendinefnd sem ætlar að heimsækja pólska þingið 9.-10. mars nk. Með mér í för verða formenn landsdeilda Finnlands og Noregs í Norðurlandaráði, þeir Erkki Tuomioja og Michael Tetzschner.

Falsfréttir og öryggismál

Á fundum með Grodzki þingforseta og fleiri pólskum þingmönnum ætlum við meðal annars að ræða stöðu pólskra innflytjenda á Norðurlöndum en jafnframt upplýsingaóreiðu og falsfréttir, sem er hluti af áherslumálum formennsku Íslands í Norðurlandaráði. Einnig verður rætt um öryggismál og sérstaklega stöðuna í Úkraínu og almennt um samstarf Póllands við Norðurlönd og Eystrasaltsríkin.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi og forseti Norðurlandaráðs.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. mars 2020.