Categories
Greinar

Bókmenntir, listir og skipasmíðar

Deila grein

06/03/2020

Bókmenntir, listir og skipasmíðar

Sam­band Íslands og Pól­lands er sterkt og vax­andi. Viðtök­urn­ar í op­in­berri heim­sókn for­seta Íslands til Pól­lands eru merki um það, en heim­sókn­inni lýk­ur í dag. Saga þjóðanna er afar ólík, þar sem pólsk menn­ing hef­ur mót­ast af land­fræðilegri stöðu og átök­um á meg­in­landi Evr­ópu í ár­hundruð.
Íslensk menn­ing á ræt­ur í hnatt­stöðu lands­ins, mik­illi ein­angr­un um ald­ir og smæð þjóðar. Engu að síður eru þjóðirn­ar um margt lík­ar og við deil­um mörg­um gild­um. Það kann að vera ein ástæða þess, að þeir ríf­lega 21 þúsund Pól­verj­ar sem búa á Íslandi hafa komið sér vel fyr­ir í nýju landi, gerst virk­ir þátt­tak­end­ur í sam­fé­lag­inu og auðgað ís­lenska menn­ingu. Það á ekki að koma nein­um á óvart að þjóð sem alið hef­ur af sér vís­inda- og lista­menn á borð við Chop­in, Kópernikus og Marie Curie skuli stolt af upp­runa sín­um og menn­ingu. Menn­ing­ar­sam­band Íslands og Pól­lands hef­ur sjald­an verið jafn gæfu­ríkt og nú.
Á 50 ára af­mæli Lista­hátíðar í Reykja­vík verður lögð sér­stök áhersla á pólska lista­menn og sam­fé­lag fólks af pólsk­um upp­runa á Íslandi. Á sviði tón­list­ar, kvik­mynda og sviðslista hafa mynd­ast sterk tengsl milli Íslands og Pól­lands og meðal ann­ars leitt til sam­starfs Íslensku óper­unn­ar og Pólsku þjóðaróper­unn­ar. Það sama hef­ur gerst í heimi bók­mennt­anna og var Ísland heiðursland á stórri bóka­messu í Gdansk í fyrra – þeirri fal­legu hafn­ar­borg, sem geym­ir ómælda þekk­ingu á skipa­smíðum og því sögu sem teng­ist ís­lensk­um sjáv­ar­út­vegi. Þá hef­ur Íslensk-pólsk veforðabók orðið til og mæt­ir brýnni þörf pólsku­mæl­andi fólks á Íslandi, nem­enda og kenn­ara á öll­um skóla­stig­um, þýðenda og túlka.
Grunn­skóla­nem­end­ur með er­lent móður­mál hafa aldrei verið fleiri en nú. Um 3.000 pólsku­mæl­andi börn eru í ís­lensk­um skól­um og það er brýnt að þeim séu tryggð sömu rétt­indi og tæki­færi og börn­um ís­lensku­mæl­andi for­eldra. Skól­arn­ir eru mis­vel bún­ir til að mæta þörf­um þeirra. Það skipt­ir sköp­um fyr­ir framtíð þeirra og sam­fé­lagið allt að vel tak­ist til á þessu sviði. Íslensk og pólsk mennta­mála­yf­ir­völd hafa und­ir­ritað sam­starfs­yf­ir­lýs­ingu um að efla enn frek­ar sam­starf land­anna á sviði mennt­un­ar. Lögð verður áhersla á að nem­end­ur af pólsk­um upp­runa hafi aðgang að mennt­un á móður­máli sínu, hvatt er til auk­ins sam­starfs mennta­stofn­ana og sam­skipta ung­menna, kenn­ara og skóla­starfs­fólks. Jafn­framt þarf að efla ís­lenskukunn­áttu þess­ara barna. Góð ís­lensku­kunn­átta mun tryggja börn­um af er­lend­um upp­runa betri tæki­færi, auka þekk­ingu þeirra á sam­fé­lag­inu, fé­lags­færni og hjálpa þeim að blómstra.
Í til­efni op­in­berr­ar heim­sókn­ar for­seta Íslands er vert að staldra við og kanna hvernig efla megi sam­vinnu land­anna enn frek­ar. Hún hef­ur verið far­sæl fyr­ir báðar þjóðir og mun von­andi verða um alla tíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. mars 2020.