Categories
Greinar

Norðurlöndin þjappa sér saman

Deila grein

17/04/2020

Norðurlöndin þjappa sér saman

Við væntum þess öll, og vonum innilega, að bráðlega verði hið versta yfirstaðið í Covid-faraldrinum. Vissulega er brekkan brött, við stöndum í þeirri öfundsverðu stöðu að geta byrjað að létta af takmörkunum, eftir þrjár vikur, ef allt gengur að óskum. Allir eru að gera sitt besta. Við horfum á hvað þessi veira gerir því að hún er óvissuþátturinn. Og hvað gerir hún nú?

Mun hún leggjast í dvala eða koma upp aftur og aftur? Við vitum það ekki. Nú þegar smitum fer fækkandi þá þurfum við að huga hratt að því hvernig við getum komið Íslandi aftur í gang. Þess vegna þurfum við að vera viðbúin öllu og erum að vinna að efnahagsaðgerðum nr. 2.

Norðurlöndin hafa hvert um sig farið sínar leiðir í viðbrögðum en á flestan hátt erum við á sömu braut. Öll byggja Norðurlöndin aðgerðir í sóttvörnum á besta mati fagfólks og stefna Norðurlandanna til að styðja við fjölskyldur og atvinnulíf hefur verið fumlaus og skýr.

Norðurlöndin hafa líka átt náið samráð sín á milli. Þar búum við Íslendingar að því að hafa þar til um síðustu áramót verið í formennsku í Norrænu ráðherranefndinni þar sem ég leyfi mér að fullyrða að okkur hafi tekist að blása lífi og krafti í norrænt samstarf með áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Norræna samstarfið heldur nú áfram en við gjörbreyttar aðstæður.

Eitt af því mikilvægasta framundan er að opna landamæri og koma samgöngum aftur í samt lag. Vöruflutningar hafa sem betur fer haldið áfram, öfugt við fólksflutninga. Ferðaþjónustan hefur nánast stöðvast. Við ætlum okkur að koma þessari grundvallaratvinnugrein aftur af stað og það mun krefjast útsjónarsemi og úthalds.

Margt bendir til þess að veröldin muni opnast í skrefum. Þá kann það að gerast að nærsvæðin – í okkar tilviki Norðurlöndin og vestnorræna svæðið – opnist fyrst. Kannski verður þróunin sú að ferðalög og viðskipti milli Norðurlandanna muni aukast umtalsvert á næstum misserum, því á milli okkar ríkir traust og samstaða. Þar skiptir samstarfið við Norðurlöndin miklu máli.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda.