Categories
Greinar

Ný íþróttastefna til ársins 2030

Deila grein

07/05/2019

Ný íþróttastefna til ársins 2030

Íþróttir eru samofnar sögu okkar og höfum við Íslendingar byggt upp umgjörð um íþróttastarf sem er öðrum þjóðum fyrirmynd. Á sama tíma hefur íslenskt íþróttafólk náð góðum árangri í ýmsum greinum. Á vettvangi íþróttanna fer fram eitt öflugasta forvarnarstarf sem völ er á og rannsóknir sýna skýr tengsl á milli góðs námsárangurs og þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi. Í vikunni sem leið kynnti ég nýja íþróttastefnu til ársins 2030. Hún var unnin í samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og íþróttanefndar ríkisins með aðkomu ýmissa annarra hagsmunaaðila.

Öryggi, aðgengi og fagmennska 

Með nýrri íþróttastefnu skilgreinum við þau forgangsverkefni sem við viljum vinna að næstu árin og þar horfum við einkum til þriggja þátta. Í fyrsta lagi að umhverfi íþróttanna sé öruggt fyrir iðkendur og starfsfólk. Í öðru lagi tryggja gott aðgengi fyrir iðkendur óháð uppruna þeirra og aðstæðum og í þriðja lagi að styrkja faglega umgjörð íþróttastarfs í landinu. Virk þátttaka og aðgengi allra að íþróttastarfi verða áframhaldandi leiðarstef í íþróttastefnu stjórnvalda en að auki leggjum við nú sérstaka áhersla á þátttöku ungmenna með annað móðurmál en íslensku, jafnrétti og nánara samstarf innan íþróttahreyfingarinnar.

Í stefnunni er fjallað um skipulag og starfsemi íþróttahreyfingarinnar og þær breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi á undanförnum árum. Fram kemur að mikilvægt sé að hlutverk og skipulag starfseininga í íþróttastarfi sé metið reglulega og að endurskoða megi verkefni, fjölda og skipulag íþróttahéraða landsins. Þá sé brýnt að auka samvinnu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands til að einfalda, styrkja og samræma verkefni þeirra með það að markmiði að efla íþróttastarf í landinu.

Framlög hafa aukist 

Framlög ríkisins til íþróttamála hafa nær þrefaldast á síðustu níu árum en á þessu ári veitir ríkið rúmlega 967 milljónir kr. til samninga og styrkja vegna íþróttamála. Þar munar mest um aukin framlög til Afrekssjóðs og Ferðasjóðs íþróttafélaganna. Framlög til Afrekssjóðs hafa fjórfaldast frá árinu 2016 og umtalsverð hækkun hefur einnig orðið til Ferðasjóðs, úr 57 milljónum kr. árið 2010 í 130 milljónir kr. sl. þrjú ár. Ríkið veitir samkvæmt fjárlögum 2019 alls um 1,2 milljarða kr. til íþrótta- og æskulýðsmála.

Traustur grunnur 

Um helgina fór fram 74. íþróttaþing ÍSÍ þar sem fulltrúar íþróttahreyfingarinnar mættu til að stilla saman strengi sína. Þar var ánægjulegt að finna þann kraft sem einkennir starf innan hreyfingarinnar. Grunnur íþróttastarfs í landinu er traustur og aðstaða til íþróttaiðkunar almennt góð. Það er kappsmál okkar allra að halda áfram á þeirri braut og gera gott starf enn betra.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. maí 2019.