Categories
Greinar

Ný neysluviðmið mikilvæg

Deila grein

18/09/2014

Ný neysluviðmið mikilvæg

Elsa-Lara-mynd01-vefurMikilvægt er að endurskoða útreikning neysluviðmiða fyrir íslensk heimili. Tilgangur neysluviðmiða er að veita heimilum í landinu upplýsingar um viðmiðin til að bera saman við áætlun eigin útgjalda. Þau koma að notum við ýmsa fjármálaráðgjöf fyrir einstaklinga og geta verið til hliðsjónar þegar teknar eru ákvarðanir um fjárhæðir sem tengjast framfærslu. Litið hefur verið svo á að neysluviðmið séu ekki endanlegur mælikvarði á hvað telst nægjanleg neysla einstakra heimila, né dómur um hvað einstakar fjölskyldur þurfa sér til framfæris.

Húsnæðiskostnað inn í ný neysluviðmið
Sníða þarf vankanta af núverandi neysluviðmiðum til þess að þau verði nákvæmari mælikvarði á hvað telst nægjanlegt til framfærslu fjölskyldu. Í núverandi neysluviðmiðum er húsnæðiskostnaður ekki innifalinn og helsti rökstuðningurinn fyrir því er að kostnaður við húsnæði sé svo breytilegur að ekki sé rétt að gefa út viðmið í þeim efnum. Talið hefur verið betra fyrir fjölskyldur að bæta raungjöldum við hin opinberu viðmið.

Athugasemdum hefur verið komið á framfæri varðandi þetta fyrirkomulag og óskað hefur verið eftir nýjum útreikningum, þar sem tekið er tillit til húsnæðiskostnaðar. Í þessu samhengi þarf að horfa til mismunandi búsetuforma og staðsetningar húsnæðis. Með húsnæðiskostnaði er átt við allan kostnað sem fellur til vegna eigin húsnæðis eða leiguhúsnæðis.

Opinbert reiknilíkan
Það er morgunljóst að ýmsir fastir útgjaldaliðir hafa hækkað mikið undanfarin ár og hefur það haft áhrif á útgjöld heimilanna. Það er staðreynd að róðurinn hefur þyngst. Þess vegna er afar mikilvægt að hefja sem allra fyrst útreikning á nýjum neysluviðmiðum og vinna það í samstarfi við hlutaðeigandi aðila. Jafnframt þarf að gera könnun á raunframfærslukostnaði einstaklinga og fjölskyldna. Raunframfærslukostnaðurinn verði síðan nýttur til að finna út lágmarks neysluviðmið. Nauðsynlegt er að reiknilíkan útreikninganna verði opinbert, eins og í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Má í því samhengi nefna Svíþjóð, Danmörk og Noreg.

Þingsályktunartillaga lögð fram
Þingmenn Framsóknarflokksins gera sér grein fyrir mikilvægi þess að útreikningur nýrra neysluviðmiða fari fram. Þess vegna hafa nokkrir úr þingmannahópnum lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að fela félags- og húsnæðismálaráðherra að hefja útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili. Samkvæmt tillögunni skulu útreikningarnir liggja fyrir á 144. þingi.

Elsa Lára Árnadóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.