Fyrr á þessu ári var samþykkt að auka framlög til vegagerðar umtalsvert sem endurspeglast í fjármálaáætlun. Aukið fjármagn verður sett í viðhald vega, nýframkvæmdum verður flýtt og þörf er á að byggja upp tengivegi og bæta þjónustu vegna aukins álags á vegakerfinu. Á næstu sjö árum verður vegaframkvæmdum, sem kosta um 130 milljarða króna, flýtt utan höfuðborgarsvæðisins. Nýlega var skrifað undir samgöngusáttmála ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Sáttmálinn staðfestir sameiginlega sýn og heildarhugsun fyrir fjölbreyttar samgöngur á svæðinu. Markmiðið er að auka lífsgæði íbúa og leysa aðkallandi umferðarvanda á höfuðborgarsvæðinu. Í samgönguáætluninni er bein fjármögnun ríkisins staðfest. Endurskoðuð samgönguáætlun verður lögð fram í nóvember og munu drög að henni fyrir 2020-2034 birtast í samráðsgátt stjórnvalda í dag. Áætlunin er uppfærsla á þeirri áætlun sem samþykkt var á Alþingi síðasta vetur, með viðbótum sem unnið hefur verið að síðustu mánuði. Stigin eru stór skref í átt að betri samgöngum á Íslandi og á flestum sviðum er þetta samgönguáætlun nýrra tíma.
Stefnumótun fyrir flug og almenningssamgöngur
Samhliða samgönguáætluninni eru í fyrsta sinn kynnt drög að flugstefnu Íslands annars vegar og stefna í almenningssamgöngum milli byggða hins vegar. Í báðum þessum stefnum birtast áherslur ríkisstjórnarinnar um að byggja upp almenningssamgöngur um land allt, á landi, sjó og í lofti. Markmiðið er að styrkja samfélagið með því að jafna aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum, eitthvað sem skiptir þjóðina alla miklu máli.
Tilgangur með mótun flugstefnu er að skapa umhverfi sem viðheldur grunni fyrir flugrekstur og flugtengda starfsemi á Íslandi og styður vöxt hennar.
Í stefnu um almenningssamgöngur milli byggða er lagt til að flug, ferjur og almenningsvagnar myndi eina sterka heild og boðið verði upp á eitt leiðarkerfi fyrir allt landið.
Samvinnuverkefni til að flýta framkvæmdum
Í samgönguáætluninni sem nú birtist almenningi er einnig lögð áhersla á að auka samvinnu milli hins opinbera og einkaaðila við að hraða uppbyggingu framkvæmda sem í senn auka umferðaröryggi og eru þjóðhagslega hagkvæmar. Öryggi er leiðarljósið við allar ákvarðanir og markmið allra öryggisaðgerða að vernda mannslíf.
Nýjar framkvæmdir sem bjóða upp á vegstyttingu og val um aðra leið verða kynntar til sögunnar eins og ný brú yfir Ölfusá, jarðgöng um Reynisfjall og láglendisveg um Mýrdal. Þá er stefnt að því að einstaka framkvæmdir verði fjármagnaðar að hluta með þessum hætti eins og ný brú yfir Hornafjarðarfljót og vegur yfir Öxi.
Sérstök jarðgangaáætlun birtist nú í samgönguáætlun. Stærstu tíðindin eru að stefnt er að því að framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng geti hafist árið 2022 eða talsvert fyrr en áður hefur verið ráðgert. Gert er ráð fyrir að bein framlög af samgönguáætlun og jarðgangaáætlun standi undir helmingi framkvæmdakostnaðar jarðganga. Stefnt er að gjaldtöku af umferð í jarðgöngum og að sú innheimta muni fjármagna rekstur og viðhald ganganna, sem og að standa undir því sem upp á vantar í framkvæmdakostnað.
Í endurskoðaðri samgönguáætlun eru slegnar upphafsnótur þeirrar næstu. Á það sérstaklega við um málefni barna og ungmenna og aðgerða til að auka jafnrétti í atvinnugreindum tengdum samgöngum. Vinna við undirbúning þeirrar umfjöllunar er þegar hafin en ljóst er að aukin þekking á þeim sviðum er bæði réttlætis- og framfaramál. Jafnframt eru góð gögn undirstaða góðra áætlana og mun ferðavenjukönnun sem nú er í gangi gefa gleggri mynd af því hvernig landsmenn fara á milli staða. Ég hvet ykkur eindregið til að kynna ykkur drög að endurskoðaðri samgönguáætlun á vefnum samradsgatt.is.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. október 2019.