Categories
Greinar

Nýir tímar boðaðir í samgönguáætlun

Deila grein

17/10/2019

Nýir tímar boðaðir í samgönguáætlun

Fyrr á þessu ári var samþykkt að auka fram­lög til vega­gerðar um­tals­vert sem end­ur­spegl­ast í fjár­mála­áætl­un. Aukið fjár­magn verður sett í viðhald vega, ný­fram­kvæmd­um verður flýtt og þörf er á að byggja upp tengi­vegi og bæta þjón­ustu vegna auk­ins álags á vega­kerf­inu. Á næstu sjö árum verður vega­fram­kvæmd­um, sem kosta um 130 millj­arða króna, flýtt utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Ný­lega var skrifað und­ir sam­göngusátt­mála rík­is og sex sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu. Sátt­mál­inn staðfest­ir sam­eig­in­lega sýn og heild­ar­hugs­un fyr­ir fjöl­breytt­ar sam­göng­ur á svæðinu. Mark­miðið er að auka lífs­gæði íbúa og leysa aðkallandi um­ferðar­vanda á höfuðborg­ar­svæðinu. Í sam­göngu­áætlun­inni er bein fjár­mögn­un rík­is­ins staðfest. End­ur­skoðuð sam­göngu­áætlun verður lögð fram í nóv­em­ber og munu drög að henni fyr­ir 2020-2034 birt­ast í sam­ráðsgátt stjórn­valda í dag. Áætl­un­in er upp­færsla á þeirri áætl­un sem samþykkt var á Alþingi síðasta vet­ur, með viðbót­um sem unnið hef­ur verið að síðustu mánuði. Stig­in eru stór skref í átt að betri sam­göng­um á Íslandi og á flest­um sviðum er þetta sam­göngu­áætlun nýrra tíma.

Stefnu­mót­un fyr­ir flug og al­menn­ings­sam­göng­ur

Sam­hliða sam­göngu­áætlun­inni eru í fyrsta sinn kynnt drög að flug­stefnu Íslands ann­ars veg­ar og stefna í al­menn­ings­sam­göng­um milli byggða hins veg­ar. Í báðum þess­um stefn­um birt­ast áhersl­ur rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að byggja upp al­menn­ings­sam­göng­ur um land allt, á landi, sjó og í lofti. Mark­miðið er að styrkja sam­fé­lagið með því að jafna aðgang að þjón­ustu, at­vinnu­tæki­fær­um og lífs­kjör­um, eitt­hvað sem skipt­ir þjóðina alla miklu máli.

Til­gang­ur með mót­un flug­stefnu er að skapa um­hverfi sem viðheld­ur grunni fyr­ir flugrekst­ur og flug­tengda starf­semi á Íslandi og styður vöxt henn­ar.

Í stefnu um al­menn­ings­sam­göng­ur milli byggða er lagt til að flug, ferj­ur og al­menn­ings­vagn­ar myndi eina sterka heild og boðið verði upp á eitt leiðar­kerfi fyr­ir allt landið.

Sam­vinnu­verk­efni til að flýta fram­kvæmd­um

Í sam­göngu­áætlun­inni sem nú birt­ist al­menn­ingi er einnig lögð áhersla á að auka sam­vinnu milli hins op­in­bera og einkaaðila við að hraða upp­bygg­ingu fram­kvæmda sem í senn auka um­ferðarör­yggi og eru þjóðhags­lega hag­kvæm­ar. Öryggi er leiðarljósið við all­ar ákv­arðanir og mark­mið allra ör­yggisaðgerða að vernda manns­líf.

Nýj­ar fram­kvæmd­ir sem bjóða upp á vegstytt­ingu og val um aðra leið verða kynnt­ar til sög­unn­ar eins og ný brú yfir Ölfusá, jarðgöng um Reyn­is­fjall og lág­lendis­veg um Mýr­dal. Þá er stefnt að því að ein­staka fram­kvæmd­ir verði fjár­magnaðar að hluta með þess­um hætti eins og ný brú yfir Horna­fjarðarfljót og veg­ur yfir Öxi.

Sér­stök jarðganga­áætl­un birt­ist nú í sam­göngu­áætlun. Stærstu tíðind­in eru að stefnt er að því að fram­kvæmd­ir við Fjarðar­heiðargöng geti haf­ist árið 2022 eða tals­vert fyrr en áður hef­ur verið ráðgert. Gert er ráð fyr­ir að bein fram­lög af sam­göngu­áætlun og jarðganga­áætl­un standi und­ir helm­ingi fram­kvæmda­kostnaðar jarðganga. Stefnt er að gjald­töku af um­ferð í jarðgöng­um og að sú inn­heimta muni fjár­magna rekst­ur og viðhald gang­anna, sem og að standa und­ir því sem upp á vant­ar í fram­kvæmda­kostnað.

Í end­ur­skoðaðri sam­göngu­áætlun eru slegn­ar upp­hafsnót­ur þeirr­ar næstu. Á það sér­stak­lega við um mál­efni barna og ung­menna og aðgerða til að auka jafn­rétti í at­vinnu­greind­um tengd­um sam­göng­um. Vinna við und­ir­bún­ing þeirr­ar um­fjöll­un­ar er þegar haf­in en ljóst er að auk­in þekk­ing á þeim sviðum er bæði rétt­læt­is- og fram­fara­mál. Jafn­framt eru góð gögn und­ir­staða góðra áætl­ana og mun ferðavenju­könn­un sem nú er í gangi gefa gleggri mynd af því hvernig lands­menn fara á milli staða. Ég hvet ykk­ur ein­dregið til að kynna ykk­ur drög að end­ur­skoðaðri sam­göngu­áætlun á vefn­um samrads­gatt.is.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. október 2019.