Tilgangur stjórnmálanna er að breyta rétt og bæta samfélagið þar sem hið lýðræðislega umboð verður til. Fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að ráðist verði í endurskoðun námslánakerfisins, þar sem lögð er áhersla á jafnrétti til náms, skilvirkni og námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd. Öll þessi fyrirheit hafa verið efnd í nýjum Menntasjóði námsmanna en ný lög, nr. 60/2020, taka gildi í dag.
Jafnrétti til náms
Lögin fela í sér grundvallarbreytingar á stuðningi við námsmenn. Fjárhagsstaða nemenda verður betri og skuldastaða þeirra að loknu námi mun síður ráðast af fjölskylduaðstæðum. Ein leið til að ná þessu fram var að tryggja barnastyrkinn sem lögin kveða á um – foreldrar í námi fá fjárstyrk en ekki lán til að framfleyta börnum sínum. Nýja kerfið miðar að því að jafna stuðning og dreifingu styrkja ríkisins til námsmanna sem taka námslán. Sérstaklega verður hugað að hópum sem reynst hefur erfiðara að sækja nám s.s. einstæðum foreldrum, fjölskyldufólki og námsmönnum utan höfuðborgarsvæðisins. Með þessari kerfisbreytingu viljum við auka gagnsæi, fyrirsjáanleika og skipta gæðum með jafnari og réttlátari hætti milli námsmanna.
Afnám ábyrgðamannakerfisins
Ný lög boða einnig afnám ábyrgðarmannakerfisins. Ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum teknum í tíð eldri laga falla niður sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna, LÍN, og ekki á vanskilaskrá. Þetta er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir marga í íslensku samfélagi. Það er mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar og geti fundið nám við sitt hæfi.
Aukin skilvirkni og bestu kjör
Þá er jafnframt innbyggður mikill hvati til bættrar námsframvindu með 30% niðurfærslu á höfuðstól og verðbótum ef námi er lokið innan tiltekins tíma. Enn fremur munu námsmenn njóta bestu lánskjara ríkissjóðs Íslands og námsaðstoðin, lán og styrkir, verða undanþegin lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Heimilt verður að greiða út námslánin mánaðarlega og lánþegar geta valið hvort lánin séu verðtryggð eða óverðtryggð. Þessi mikilvægu lög munu því stuðla markvisst að betra nýtingu fjármuna, aukinni skilvirkni og þjóðhagslegum ávinningi fyrir samfélagið.
Aukinn sveigjanleiki á tímum COVID-19
Á vandasömum tímum er mikilvægt að tryggja vellíðan nemenda og standa vörð um menntakerfið okkar. Á tímum COVID-19 sýndi LÍN skjót og sveigjanleg viðbrögð með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Þessi viðhorf verða áfram í hávegum höfð í nýjum Menntasjóði. Búið er að hrinda í framkvæmd nýju námsstyrkjakerfi sem er að norrænni fyrirmynd. Með nýjum lögum er verið að sinna tilgangi stjórnmálanna, þ.e. að breyta rétt, bæta samfélagið og standa við fyrirheit stjórnarsáttmálans.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júní 2020.