Categories
Greinar

Nýtt upphaf

Deila grein

14/05/2018

Nýtt upphaf

Þann 11. nóvember síðastliðinn urðu kaflaskipti í lífi Garðbúa og Sandgerðinga. Við tókum þá ákvörðun um að sameinast í eitt öflugt sveitarfélag. Þennan laugardag varð strax ljóst að breytinga væri að vænta. Breytingum fylgja sóknarfæri og við B-lista fólk viljum fá að vera í fararbroddi í þeirri sókn. Við erum með skýra framtíðarsýn á verkefnin framundan og höfum samvinnu að leiðarljósi.

Samvinna við mótun nýs sveitarfélags

Íbúar í okkar nýja sveitarfélagi eiga það skilið að tilvonandi sveitastjórnarfólk vinni þétt saman að mikilvægum málum, eins og fræðslu- og öldrunarmálum, dagvistun, skipulags- og menningarmálum, svo eitthvað sé nefnt. Að mati okkar hjá B-listanum er ótímabært að langir loforðalistar detti inn um bréfalúgu íbúa þar sem öllu fögru er lofað. Við setjum okkur markmið og leggjum fram ákveðan framtíðarsýn. Líklega hefur enginn af tilvonandi sveitastjórnarfólki áður tekið þátt í að sameina sveitarfélög. Það verkefni er afar spennandi áskorun og tækifæri til að bæta þjónustu við íbúa og þróa okkar góða samfélag til framtíðar.

Aðkoma íbúa að ákvörðunum

Tölurnar sýna að hið nýja sveitarfélag verði með um 250.000 milljónir króna til umráða til nýframkvæmda fyrir árið 2019. Að mati okkar hjá B-listanum er mikilvægt að íbúar komi að ákvarðanatöku um hvernig verkefnum verði forgangsraðað og fjármunum til þeirra úthlutað. Það gerum við með íbúakosningum.

Aukum lífsgæði eldri borgara

Við vitum öll að sveitarfélögin hafa ekki gert nóg í málefnum aldraða. Nú er tækifæri að gera betur í þeim efnum. Við hjá B-listanum viljum auka heimaþjónustu við aldraða, bjóða uppá fjölbreyttara félagsstarf, bæta akstursþjónustu og margt fleira sem eykur lífsgæði eldri borgara. En heilsugæsla í heimabyggð er líka eitt af þeim verkefnum sem við B-lista fólk ætlum að beita okkur sérstaklega fyrir.

Nýtt upphaf er á næsta leyti. Framsókn og óháðir eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til að gera gott samfélag ennþá betra fyrir okkur öll. Við biðjum um þinn stuðning til þess.

Daði Bergþórsson, oddviti B-lista Framsóknar og óháðra í Sandgerði og Garði.