Atvinnumálin á Suðurnesjum hafa verið í brennidepli í mörg ár. Árið 2006 hurfu mörghundruð störf vegna brotthvarfs bandaríska hersins og tveimur árum síðar hrundi íslenska bankakerfið. Helguvíkurverkefnið hefur ekki gengið sem skyldi og nú glímir Reykjanesbær við gríðarlega erfiða fjárhagslega stöðu. Hvað er til ráða og hver á að gera hvað? Er einhverra breytinga að vænta? Svarið er já og öll gegnum við mikilvægu hlutverki í umbreytingunni sem framundan er.
Sérkennileg þróun
Á sama tíma og störf hurfu af svæðinu þá fjölgaði íbúum Reykjanesbæjar um mörg prósent. Reynslan sýnir hins vegar að þegar störfum fækkar þá fækki íbúum jafnframt, þ.e. íbúar leita venjulega til staða þar sem störf er að finna. Hér var því öfugt farið. Afleiðingar þessarar öfugþróunar þekkjum við of vel; atvinnuleysi og stóraukinn kostnaður félagsþjónustunnar. En þrátt fyrir að hér sé enn mesta atvinnuleysi á landsvísu þá tala atvinnurekendur um að erfitt sé að fá fólk til vinnu. Þeir sem sækja um mæta jafnvel ekki eða seint og illa þegar til kemur. Slæmt er ef rétt reynist.
Lausn í sjónmáli
Helguvíkin er enn ekki farin að skila því sem væntingar stóðu til. Staðreyndin er sú að bæjaryfirvöld fóru í kostnaðarsamar framkvæmdir án þess að hafa vilyrði stjórnvalda fyrir ríkisstyrk. ESA reglur um opinberan stuðning setja ríkisvaldinu þröngar skorður um með hvaða hætti slíkur stuðningur má vera til að teljast lögmætur. Núverandi iðnaðarráðherra, Ragnheiður Elín, hefur markvisst að málinu síðan hún tók við ráðuneytinu og vonandi finnst viðunandi lausn innan tíðar.
Störf á næsta leyti
Hið opinbera býr ekki til störf. Alþingi og ríkistjórn móta rammann en það er fólkið, heimamenn sem búa til atvinnutækifærin. Þar reynir á sköpunargáfuna, dugnað og úthald. Frá því að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs tók við vorið 2013 hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra gert þrjá fjárfestingasamninga um verkefni á Suðurnesjum, m.a. við örþörungaverksmiðjuna Algalíf á Ásbrú, United Silicon kísilverksmiðju í Helguvík og Thorsil. Þessi fyrirtæki munu skapa hundruð starfa í framtíðinni. Til viðbótar við einstök verkefni má nefna að frumvarp iðnaðarráðherra um ívilnanir vegna nýfjárfestinga mun styðja við atvinnuuppbyggingu um allt land, ekki síst á Suðurnesjum. Eitt af fyrstu verkum ráðherra var tryggja lönd á Vatnsleysuströnd fyrir lagningu Suðvesturlínu og tryggja þar með orkuflutning sem er nauðsynleg undirstaða áframhaldandi uppbyggingar atvinnulífsins.
En við getum öll gert betur. Öll gegnum við mikilvægu hlutverki og berum ábyrgð, því samfélagið er við sjálf.
Silja Dögg Gunnarsdóttir
Greinin birtist á vf.is 6. desember 2014
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.