Categories
Fréttir

Tekjurnar aukast og hallalaus ríkisrekstur

Deila grein

04/12/2014

Tekjurnar aukast og hallalaus ríkisrekstur

Vigdís HauksdóttirÖnnur umræða fjárlaga hófst á Alþingi í gær og verið framhaldið í dag. Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar mælti fyrir nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar og fór yfir áform meirihlutans.
Fjárlaganefnd hefur haft frumvarpið til umfjöllunar eftir að málið gekk til hennar þann 12. september. Fjölmargir gestir hafa verið kallaðir fund nefndarinnar, þar má nefna fulltrúa 43 sveitarfélaga, fulltrúa landshlutasamtaka sveitarfélaga, fulltrúa allra ráðuneyta, Hagstofunnar, Ríkisendurskoðunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Seðlabanka Íslands auk annarra gesta.

  • Nefndarálit um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015. Frá meirihluta fjárlaganefndar.
  • Breytingartillaga við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015. Frá meirihluta fjárlaganefndar.

Fór Vigdís yfir í ræðu sinna að forgangsraðað hefur verið í þágu grunnþátta samfélagsins, heilbrigðismála, menntamálin, samgöngumál, þ.e. aukið fé í flugvelli, vegi og ljósleiðaravæðingu landsins.
Á næstu missirum verður kynnt losun hafta og samninga við kröfuhafa þannig að þá skapast svigrúm til þess að ríkið geti grynnkað á skuldum sínum. Vaxtakostnaðurinn nemur í dag hærri fjárhæð en öll framlög ríkisins til reksturs Landspítalans og Sjúkratrygginga Íslands. „Miklar skuldir ríkissjóðs eru ávísun á að börn okkar og barnabörn muni að öllu óbreyttu ekki njóta sömu lífsgæða og núverandi kynslóðir,“ sagði Vígdís.
„Mikið vantar upp á að skilningur sé í stjórnkerfinu á mikilvægi hagræðingar og forgangsröðunar innan ríkiskerfisins. Meiri hluti fjárlaganefndar vekur sérstaklega athygli á verkefnum um útboð og innkaup ríkisstofnana. Aðföng í rekstri ríkisstofnana nema um 130 milljörðum kr. á ári. Ljóst er að endurbætur á innkaupaferlum geta skilað umtalsverðri hagræðingu fyrir ríkissjóð og ríkisstofnanir. Innkaup eru á hendi fjölmargra aðila og því er mikilvægt að leggja innkaupaaðilum í hendur markvisst verklag og skilvirk verkfæri til þess að árangur verði sem mestur. Almenn útboð á vöru eða þjónustu og rammasamningsútboð eru slík verkfæri,“ sagði Vígdís.
„Fyrir réttu ári skilaði hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar tillögum sínum. Meiri hluti fjárlaganefndar telur að of hægt gangi að koma þeim til framkvæmda. Af 95 tillögum sem voru á ábyrgðarsviði einstakra ráðherra hefur nú 14 tillögum verið hrundið í framkvæmd, 53 tillögur eru í vinnslu og 17 eru í forathugun. 11 tillögur eru ekki hafnar eða verða ekki framkvæmdar. Meiri hlutinn leggur ofuráherslu á að framkvæmdarvaldið komi þessum tillögum í framkvæmd sem fyrst til að ná fram enn frekari sparnaði í ríkisrekstrinum,“ sagði Vígdís ennfremur.
Framlög til Íbúðalánasjóðs hafa numið 53,5 milljörðum kr. frá árinu 2009 og að öllu óbreyttu verða framlögin 5,7 milljarðar kr. á árinu 2015. Að þeim meðtöldum hafa framlögin frá árinu 2009 numið svipaðri fjárhæð og nemur byggingarkostnaði nýs Landspítala.
Ríkisútvarpið fær aukið 181,9 millj. kr. skilyrt framlag til rekstrar í þessum tillögum. Sú tímabundna fjárheimild er háð þeim skilyrðum að fram fari vinna á fjárhagslegri endurskipulagningu Ríkisútvarpsins. Þá verði útborgun fjárheimildarinnar enn fremur háð því að haldbærar rekstraráætlanir séu lagðar fram þar sem fram komi hvernig starfsemi stofnunarinnar verði komið á réttan kjöl og hún verði sjálfbær til frambúðar.
Að meirihluta áliti fjárlaganefndar standa auk Vigdísar, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ásmundur Einar Daðason, Willum Þór Þórsson, Haraldur Benediktsson og Valgerður Gunnarsdóttir.
Framsaga Vigdísar Hauksdóttur formanns fjárlaganefndar:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.