Categories
Greinar

Okkar skoðun skiptir máli – Til ungra kjósenda í Dalvíkurbyggð!

Deila grein

10/05/2018

Okkar skoðun skiptir máli – Til ungra kjósenda í Dalvíkurbyggð!

Framundan eru sveitarstjórnarkosningar og snúast þær um að taka afstöðu til málefna næstu fjögurra ára, málefna framtíðarinnar í samfélaginu okkar. Mér finnst mjög mikilvægt að ungt fólk taki virkan þátt í þeim ákvörðunum.

Mig langar til þess að hvetja unga kjósendur til að gefa sér tíma og kynna sér málefnin vel, t.d. með því að lesa stefnuskrár, skoða áhersluatriði á komandi kjörtímabili og horfa á það með gagnrýnum hætti. Kynna sér vel hvað hvert og eitt framboð leggur áherslu á og velta fyrir sér t.d. hvað mun það kosta, hvað mun það koma til með að gera fyrir sveitafélagið okkar, og hvaða áhrif hefur það á fjármál sveitafélagsins okkar til lengri tíma o.s.frv. Það er mikilvægt að skoða sveitarstjórnarmálin eins og við skoðum okkar eigið líf, velja og hafna eftir því hvað maður hefur efni á að gera hverju sinni.

Ég hvet ykkur til að vera dugleg að kíkja á kosningaskrifstofurnar og ræða við frambjóðendur. B-listinn vill hlúa vel að unga fólkinu í samfélaginu og teljum við mikilvægt að fá að heyra skoðanir ykkar og hugmyndir. B-listinn vill hafa sterkt og öflugt ungmennaráð sem er rödd unga fólksins til sveitarstjórnar.

Miðvikudagskvöldið 23.maí ætlum við hjá B-listanum að bjóða upp á kvöldstund á kosningaskrifstofunni sem er tileinkuð ungum kjósendum. Þar verða pizzur og pub quiz en þar verða líka umræður og er það tilvalið tækifæri fyrir ykkur til þess að koma ykkar skoðunum á framfæri.

Umfram allt vil ég hvetja ykkur til þess að nýta kosningarrétt ykkar og lýðræðið. Mætum á kjörstað og kjósum. Okkar skoðun skiptir máli.

Með kveðjum,

Eydís Arna Hilmarsdóttir13. sæti B-lista