Categories
Greinar

Horft til framtíðar

Deila grein

10/05/2018

Horft til framtíðar

Góð heilsa gulli betri

Íþróttir eru mikilvægar fyrir samfélagið okkar, þær bæta ekki einungis lýðheilsu íbúanna sem þær stunda heldur eru þær einnig mikilvæg forvörn fyrir börnin okkar og unglinga. Því er nauðsynlegt að gera íþróttum og tómstundum hátt undir höfði og tryggja að flestum standi til boða íþrótta- og tómstundarstarf. En rekstur faglegrar íþróttastarfsemi er almennt kostnaðarsamur fyrir íþróttafélögin sjálf og deildir þeirra og þ.a.l. iðkendur og forráðamenn þeirra. Bæði er kostnaður við starfið sjálft mikill og einnig eru mannvirki og búnaður, sem þarf til að stunda hinar ýmsu íþróttir, kostnaðarsamur. Þar þarf sveitarfélagið að hjálpa til eins og frekast er unnt. Tómstundarstyrkur sveitarfélagsins hefur komið til móts við kostnað barna í íþróttum og forráðamanna þeirra sem er af hinu góða. En tómstundarstyrkurinn þarf síðan að fylgja eðlilegri verðlagsþróun tengdri íþróttastarfseminni. Einnig er nauðsynlegt að koma til móts við aukinn kostnað foreldra í dreifbýli vegna aksturs í íþrótta- og tómstundarstarf. Það er í sambandi við mannvirkin sem sveitarfélagið þarf e.t.v. að grípa ennþá sterkar inn í. Þó eru ekki öll börn og unglingar sem finna sig í íþróttum og það er nauðsynlegt að hlúa einnig að þeim. Í því sambandi er rekstur félagsmiðstöðvarinnar nauðsynlegur nú sem áður. Félagsmiðstöðin fékk á dögunum nýtt og endurbætt húsnæði sem er vel. Það góða innra starf sem þar er unnið þarf sveitarfélagið e.t.v. að styrkja enn betur með lengri og auknum opnunartíma.

Staðan

Íþróttastarfið er í ágætum blóma hér í Hornafirði og er framboð ólíkra íþróttagreina ótrúlega fjölbreytt að mínu mati miðað við fjölda íbúa. Körfuknattleikurinn er í miklum uppgangi þessi misserin og blakið er jafnframt vaxandi. Þá er fimleikastarfið öflugt og knattspyrnan er alltaf vinsæl meðal iðkenda. En alltaf má gera betur og það þarf að vanda til verka nú sem áður. Undirrituðum hefur alltaf þótt heillandi að hafa bæði húsnæði Grunnskólans, mest notuðu íþróttamannvirkin og miðsvæði til útivistar og afþreyingar á sama svæðinu. Svæði þar sem börn þurfa ekki að fara yfir umferðargötu til að komast á milli skólabygginga og allra helstu íþróttamannvirkjanna. Síðan er Vöruhúsið, miðja skapandi greina, ásamt félagsmiðstöðinni ekki langt undan. Það eru mikil forréttindi að geta haft þetta svona og taka þarf mið af því til framtíðar.

Nýtt íþróttamannvirki

Oft hefur verið rætt um að næsti áfangi í tengslum við uppbyggingu íþróttamannvirkja ætti að vera millibygging milli sundlaugar og Heppuskóla. En upp á síðkastið hafa ýmsar fleiri framkvæmdir verið nefndar sem menn telja þarft að ráðast í. Meðal þeirra er t.d. nýtt íþróttahús, framtíðarhúsnæði fyrir líkamsræktarstöð, stærra húsnæði fyrir fimleika, vallarhús fyrir knattspyrnu- og frjálsíþróttavöllinn og nýja áhorfendastúku fyrir knattspyrnuvöllinn. Er jafnvel hægt að leysa flestar þessar framkvæmdir með einni nýrri byggingu? Þá losnar líka um gamla íþróttahúsið sem gæti nýst fyrir t.d. líkamsrækt, bardagaíþróttir, danskennslu, klifur auk annars. Með byggingu á nýju íþróttahúsi gætum við skapað iðkendum í þessum íþróttagreinum, ásamt greinum sem áður hafa verið nefndar, miklu betri aðstæður til æfinga og leikja. Listi Framsóknar og stuðningsmanna þeirra vilja setja uppbyggingu íþróttamannvirkja á dagskrá. Við getum samt ekki ráðist í þær framkvæmdir og forgangsraðað hugsanlegum áföngum nema að undangengnu víðtæku samráði við íþróttahreyfinguna og skólasamfélagið. Við viljum byrja á samtali við þau áður en ákvarðanir verða teknar, en ekki ráðast blint í einhverjar framkvæmdir sem e.t.v. leysa vandann bara tímabundið. Það þarf að hugsa lengra en til fjögurra ára í þessum efnum, áætlanir þurfa að taka mið af þörf og notkun næstu 20-30 ára.

Björgvin Óskar Sigurjónsson, 4. sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna þeirra á Hornafirði.