Categories
Greinar

Öryggi okkar allra

Deila grein

17/01/2020

Öryggi okkar allra

Veturinn hefur verið okkur á Íslandi erfiður og er þá vægt að orði komist. Sérstaklega hefur þungi þessa vetrar lagst á íbúa Vestfjarða og Norðurlands, fyrst með ofsaveðri í desember og síðan með snjóflóðum á Vestfjörðum í þessari viku. Við þessar aðstæður, slík gjörningaveður, finnum við fyrir smæð okkar og vanmætti gagnvart náttúrunni en um leið fyrir því hversu hugvit og fyrirhyggja getur aukið öryggi okkar og lífsgæði eins og sýndi sig varðandi snjóflóðavarnargarða í Önundarfirði.

Við erum fámenn þjóð í stóru landi. Aðstæður okkar eru mjög misjafnar þótt hagsmunir okkar fari jafnan saman. Ég finn stundum fyrir því að það skortir á skilning þeirra sem búa utan hinna dreifðu byggða á aðstæðum eins og þeim sem komu upp í desember og nú í janúar 2020.

Það er enda erfitt að setja sig í spor þeirra sem misstu allt samband við umheiminn, hvort heldur rafmagn, síma eða útvarp, í óveðrinu í desember. Þá vorum við minnt harkalega á að rafmagn er ekki einhver lúxus heldur grundvallarþáttur í öryggi okkar og lífsgæðum.

Öryggi er stór hluti af því að líða vel. Þess vegna höfum við byggt samfélag með sterku öryggisneti. Ég hef í störfum mínum sem samgönguráðherra sett umferðaröryggi í algjöran forgang þegar kemur að þeirri miklu uppbyggingu í samgöngum sem hafin er eftir alltof langa kyrrstöðu. Öryggið snýr ekki aðeins beint að vegunum heldur er það líka mikið öryggisatriði að samspil samgangna á landi, í lofti og á sjó gangi vel.

Þegar á bjátar og við heyrum erfiðar sögur meðborgara okkar þá fáum við skilning og fyllumst samlíðan. Með þann skilning í farteskinu skiljum við betur nauðsyn þess að efla innviði um allt land: leggja öruggari vegi, tryggja betur afhendingaröryggi orku og jafna kostnað við dreifingu hennar og styðja betur við sveitir landsins. Þá farnast okkur vel.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. desember 2019.