Landsbankinn hefur viðrað áform um að byggja allt að 15 þúsund fermetra húsnæði fyrir nýjar höfuðstöðvar bankans og vill hefja framkvæmdir sem fyrst. Í ljósi þess að Landsbankinn er í eigu ríkisins, sem er mjög skuldugt og stendur í erfiðum niðurskurði, er spurning hvort nýjar höfuðstöðvar ríkisbankans eigi að njóta forgangs.
Ef ríkisbankinn er aflögufær um þá milljarða sem þarf til að byggja höfuðstöðvar, þá hlýtur það að vera krafa eigandans eins og staðan er núna að fjármagnið renni í ríkissjóð í formi arðs. Þannig myndu milljarðarnir nýtast við brýnni verkefni til dæmis í heilbrigðiskerfinu.
Stjórnendur bankans hafa án efa mörg rök fyrir því að nýjar höfuðstöðvar séu þörf fjárfesting frá sjónarhóli bankans. En áður en ráðist væri í slíka fjárfestingu, þarf að kanna hvort hluthafinn, ríkið, hafi einhver brýnni not fyrir fjármagnið. Eru skattgreiðendur fúsir til að borga hærri skatta til að fjármagna nýjar höfuðstöðvar ríkisbankans, eða tilbúnir til að sætta sig við verri heilbrigðisþjónustu í nokkur ár?
Haft hefur verið eftir Sigmundi Davíð forsætisráðherra um byggingaráform Landsbankans: „Ríkið, stofnanir þess og fyrirtæki í opinberri eigu munu þurfa að spara á næstu árum. Nú er verið að endurskoða ýmis útgjaldaáform þannig að það myndi skjóta skökku við ef ríkisfyrirtæki réðist á sama tíma í byggingu dýrra höfuðstöðva”. Ég get tekið undir hvert orð.
Nýjar höfuðstöðvar yrðu ekki byggðar fyrir íslenskar krónur eingöngu. Ríflega helmingur byggingakostnaðar yrði í erlendum gjaldeyri til kaupa á byggingarefnum, stáli, steypu og fleiru því sem þarf til nýbygginga. Á sama tíma er óleystur sá vandi að Landsbankinn á ekki nægan gjaldeyri til að greiða af stóra skuldabréfinu til gamla Landsbankans. Umrætt skuldabréf er eitt af stóru vandamálunum sem þarf að leysa svo hægt sé að afnema hér fjármagnshöft. Vart yrði auðveldara að útvega þann gjaldeyri ef kaupa þyrfti á sama tíma inn byggingavörur fyrir milljarða í erlendum gjaldeyri. Nýju höfuðstöðvarnar munu því miður hvorki spara gjaldeyri né skapa gjaldeyristekjur.
Jafnvel þótt hagur ríkissjóðs væri í blóma og enginn fjármagnshöft, þá væri samt ástæða til að staldra sérstaklega við ef bankar hyggjast ráðast í byggingu nýrra höfuðstöðva. Því þegar banki byggir, þá leiðir það yfirleitt til aukningar á peningamagni og verðbólgu. Bankar þurfa nefnilega ekki að taka lán fyrir byggingarkostnaðinum, þeir greiða kostnaðinn með krónum sem þeir búa til í formi innstæðna. Innstæðna sem byggingaverktakinn tekur sem fullgilda greiðslu. Þetta væri auðvitað ekki vandamál ef bönkum væri bannað að búa til peninga, þá þyrftu þeir að fjármagna sínar byggingar með sama hætti og önnur fyrirtæki. Höfuðstöðvar banka yrðu þá kannski byggðar af meiri nægjusemi en verið hefur hingað til.
Ég bind vonir við að skynsöm stjórn Landsbankans opni augun og líti á stóru myndina, íhugi þarfir og forgangsröð eiganda bankans, sem er þjóðin sjálf, og leggi í kjölfarið hugmyndir um byggingu nýrra höfuðstöðva til hliðar, allavega þar til betur árar.
FROSTI SIGURJÓNSSON
(Pistillinn birtist í DV 26. ágúst 2013)