Categories
Greinar

Ábyrgar veiðar

Deila grein

26/08/2013

Ábyrgar veiðar

Aflahlutdeildakerfið, eða hið svo kallaða kvótakerfi, hefur löngum verið þrætuepli manna í millum. Á fyrstu áratugum kerfisins deildu menn einkum um, hvort það ætti rétt á sér, eða hvort það skyldi lagt af. Undanfarin ár hefur sú jákvæða þróun orðið að umræðan hefur færst úr því fari í meiri samhljóm um að veiðistýring, sem byggist á aflahlutdeildarkerfi, hafi þrátt fyrir allt skilað góðum árangri. Því til staðfestingar má nefna frumvörp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, sem lögð hafa verið fram á Alþingi á undanförnum árum, en í þeim er gengið út frá að veiðum verði stýrt með aflahlutdeildum. Einnig má nefna niðurstöðu Sáttanefndarinnar svo kölluðu frá árinu 2010 þar sem breiður hópur frá hagsmunaaðilum og stjórnmálaflokkum sammæltist um það að veiðum skyldi stýrt með aflahlutdeildakerfinu. Stýring með þessu móti er hagkvæm. Um 11% af landsframleiðslunni eru fiskveiðar og -vinnsla. Kerfið stuðlar að sjálfbærri nýtingu á fiskistofnum og flestir stofnar við Íslandsstrendur eru í vexti. Á alþjóðavettvangi er Ísland viðurkennt fyrir ábyrga fiskveiðistjórnun og árangurinn af henni jafnvel talinn öfundsverður.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að fiskveiðistjórnunarkerfið verði yfirfarið og að grundvöllur fiskveiðistjórnunar verði áfram aflahlutdeildakerfið. Í lögum um stjórn fiskveiða segir að ef heildarafli sé takmarkaður skuli úthluta aflahlutdeild til einstakra skipa. Við setningu aflahlutdeildar skal miða við samfellda veiðireynslu undanfarinna þriggja ára.

Í mislangan tíma hefur veiðum á nokkrum fisktegundum verið stýrt með því að ákvarða hámarksheildarafla og leyfisbinda veiðarnar. Verndarsjónarmið ráða þar för og komið hefur verið í veg fyrir ofveiði. Þessar tegundir hefði með réttu átt að hlutdeildasetja um leið og samfelld veiðireynsla lá fyrir.

Breytingar verða gerðar á reglugerð um leyfilegan heildarafla á fiskveiðiárinu sem gengur í garð 1. september. Breytingin, sem birt verður í dag, felur í sér þá ákvörðun mína að setja, í fyrsta skipti, leyfilegan heildarafla fyrir blálöngu, litla karfa og gullax. Í þessu felst að í framhaldinu verður aflahlutdeildum, í þessum tegundum, úthlutað til einstakra skipa. Leyfilegur heildarafli tegundanna ákvarðast af ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Framangreind rök eiga við um einn stofn til viðbótar; makríl. Ég mun bráðlega setja af stað vinnu þar sem farið verður yfir hvernig réttast verði staðið að því að setja hann í kvóta.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs-, landbúnaðar-, og umhverfisráðherra